Þroskahjálp og Átak á ráðstefnu Inclusion í Brussel

Á myndinni eru Birna (Átak), Inga Hanna (Átak), Milan (Inclusion Europe), Jyrki (Inclusion Europe) o…
Á myndinni eru Birna (Átak), Inga Hanna (Átak), Milan (Inclusion Europe), Jyrki (Inclusion Europe) og Unnur Helga (Þroskahjálp).

Í vikunni fer fram ráðstefna Inclusion Europe í Brussel, sem ber heitið End segregation eða Bindum enda á aðskilnað.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar og fulltrúar Átaks - félags fólks með þroskahömlun, þær Birna Guðmundsdóttir og Inga Hanna Jóhannesdóttir eru staddar á ráðstefnunni.

Inclusion Europe eru samtök sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum fólks með þroskahömlun og aðstandenda þeirra í Evrópu. Aðild að samtökunum eiga auk Þroskahjálpar 73 samtök frá 39 Evrópulöndum.  

Á ráðstefnunni koma saman meira en 200 einstaklingar með þroskahömlun, aðstandendur þeirra, aktívistar og fagfólk. Þátttakendur ræða málefni sem þeim eru hugleikin, deila reynslu sinni og hugmyndum til þess að auka inngildingu og réttindi fatlaðs fólks.

 Mynd af Unni Helgu, formanni Þroskahjálpar og tveimur konum sem eru fulltrúar Úkraínu. Þær standa fyrir framan banner sem á stendur Inclusion Europe. Þær eru allar með nafnspjöld og barmmerki með úkraínska fánanum.Á ráðstefnunni hitti Unnur Helga fulltrúa Úkraínu, en Landssamtökin Þroskahjálp hafa í samstarfi við hreyfingar fatlaðs fólks á Íslandi sent út nærri 17 milljónir kr. til neyðaraðstoðar fyrir fatlað fólk í Úkraínu sem býr við afar erfiðar aðstæður vegna innrásar Rússlands í landið. Inclusion Europe hefur milligöngu til þess að tryggja að fjármagnið nýtist vel og komist á réttan stað.