Ekki heimilt að láta fatlaðan einstakling taka þátt í að greiða fæði starfsmanns

Auðlesið:

  • Fötluð manneskja þurfti að borga fyrir mat fyrir starfsmann sem var að aðstoða hana.

  • Manneskjan var ekki ánægð með að þurfa að borga fyrir starfsmanninn sinn.

  • Hún fékk aðstoð hjá réttindagæslumanni fatlaðs fólks til að athuga hvort það væri rétt. 

  • Málið fór til úrskurðar-nefndar velferðar-mála. Það er nefnd sem skoðar ákvarðanir sem eru teknar í velferðar-málum og tekur ákvörðun um hvort verið sé að fara eftir lögum og reglum.

  • Úrskurðar-nefndin sagði að sveitarfélagið mætti ekki láta fötluðu manneskjuna borga mat fyrir starfsmann sem hjálpaði honum. Sveitarfélagið á að borga það. 

Úrskurðarnefnd velferðarmála felldi fyrr í mánuðinum úr gildi ákvörðun sveitarfélags um að láta fatlaðan einstakling taka þátt í að greiða kostnað af fæði starfsmanns sem veitti honum þjónustu.

Nefndin taldi ekki vera lagaheimild fyrir greiðsluþátttöku kæranda í fæðiskostnaði starfsmanns sé sá kostnaður hluti af stoðþjónustu sveitarfélagsins og vísaði nefndin málinu því til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

Réttindagæslumaður rak málið fyrir kæranda. Nánari upplýsingar um hlutverk réttindagæslumanna og fordæmisgildi þessa máls má fá hjá réttindagæslu félagsmálaráðuneytisins. 

Hér má nálgast upplýsingar um réttindagæslumenn.

Úrskurðarnefnd velferðarmála er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum, m.a. ákvarðana sveitarfélaga á sviði félagsþjónustu og húsnæðismála. Nánari upplýsingar um úrskurðarnefndina má fá á heimasíðu nefndarinnar.

Heimasíðu Úrskurðarnefndar má skoða hér.