Starfsnemar á fund félags- og vinnumarkaðsráðuneytis

Starfsnemar Þroskahjálpar hittu fulltrúa félags- og vinnumarkaðsráðuneytis. Á myndinni má sjá Guðrún…
Starfsnemar Þroskahjálpar hittu fulltrúa félags- og vinnumarkaðsráðuneytis. Á myndinni má sjá Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur, Þór G. Þórarinsson og Önnu Klöru Georgsdóttur frá félags- og vinnumarksráðuneyti ásamt Hauki Hákoni, Fabiönu Moraiz og Sunnu Dögg frá Þroskahjálp.

Starfsnemar Þroskahjálpar, þau Fabiana og Haukur Hákon, hafa nú lokið starfsnámi sínu hjá Þroskahjálp. Við nutum krafta þeirra í fjórar vikur og ekki er annað hægt að segja en að samstarfið hafi verið farsælt, ánægjulegt og fyrst og fremst kraftmikið.Haukur og Fabiana hafa tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum skrifstofunnar og hafa sýnt mikið frumkvæði og metnað í öllu sem þau komu að.

Í síðustu viku heimsóttu þau Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið til þess að kynna sér störf ráðuneytisins og fá upplýsingar og svör við spurningum sem á þeim brenna. Þaumættu vel undirbúin með lista af spurningum um málefni sem eru þeim hugleikin.Haukur, Fabiana og Sunna Dögg frá Þroskahjálp með fulltrúum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis

Spurningarnir sem Haukur og Fabiana mættu með voru:

1. Hversu margir fatlaðir einstaklingar vinna í ráðuneytinu?

2. Hvaða þekkingu hafið þið á fötluðu fólki sem kemur til landsins og þeim upplýsingum sem þau fá?

3. Hvernig hjálpið þið fötluðu fólki sem kemur til landsins og talar ekki íslensku?

4. Hversu margir fatlaðir einstaklingar hafa möguleika á að fá gott starf?

5. Af hverju er diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun ef það er svo ekki úr mörgum störfum að velja fyrir fólk sem fer í námið og ef flest störf sem fatlað fólk sem fer í diplómunámið eru störf sem ekki þarf menntun í?

6. Hvernig styðjið þið fatlað fólk sem býr við stríð, til dæmis í Úkraínu?

________________________________________________

Haukur og Fabiana segja að fundurinn hafi verið skemmtilegur og áhugavert að hitta þá sem starfa í ráðuneytinu og bera mikla ábyrgð á málefnum fatlaðs fólks. Þeim hafi verið vel tekið og skynjað mikinn vilja til að gera betur, en það hafi valdið svolitlum vonbrigðum að lítil svör fengust við spurningunum sem þau lögðu fyrir. Þau vona bæði að tími breytinga sé kominn og að þau fái tækifæri til að leggja sitt að mörkum til að tryggja betur réttindi fatlaðs fólks.

Við þökkum Hauki og Fabiönu kærlega fyrir samstarfið og hlökkum til að vinna með þeim í framtíðinni að auknum réttindum og tækifærum fatlaðs fólks.