Starfsdagur stjórnar og skrifstofu Þroskahjálpar

Starfsdagur stjórnar og skrifstofu Þroskahjálpar var haldinn laugardaginn 20. janúar 2024. Öll stjórn var mætt ásamt þorra starfsmanna skrifstofu. Unnur Helga formaður bauð fólk velkomið og verkefnastjórar Þroskahjálpar tóku svo til máls einn af öðrum og kynntu fyrir stjórninni hvaða verkefni eru í brennidepli starfsins.

Árni Múli framkvæmdastjóri samtakanna kynnti síðan stefnuskrá samtakanna sem var gerð árið 2003. Stefnuskráin var þá mjög framsækin og vel skrifuð, og hefur elst ótrúlega vel. Engu að síður, nú 20 árum síðar þykir fullt tilefni til að ráðast í endurskoðun hennar. Árni Múli kallaði eftir því frá stjórn að farið yrði í að uppfæra hana miðað við stöðuna í samfélaginu í dag.

Unnur Helga og Anna Lára fóru síðan yfir stefnumótunarvinnu Þroskahjálpar sem farið var í árið 2021 til kynningar fyrir nýju stjórnarfólki.

Eftir hádegismat kynntu Þórarinn Snorri og Anna Lára, verkefnastjórar á skrifstofu Þroskahjálpar, þau fimm gildi sem valin voru í stefnumótunarvinnunni og merkingu þeirra. Í kjölfarið kusu stjórn og starfsmenn þrjú af þessum fimm gildum. Niðurstaða kosningarinnar verður síðan lögð fyrir stjórn til samþykktar. 

Í kjölfarið voru umræður á borðum en fundargestir skiptu sér niður í þrjá hópa og voru umræðuefnin fyrirfram ákveðin og átti hver hópur að fjalla um eitt af eftirtöldum málaflokkum: Húsnæðismál og þjónusta, atvinnu og menntamál og inngilding tækni og nýjar áskoranir. Einnig ræddu allir hóparnir um starf Þroskahjálpar, þar gafst stjórnarmönnum tækifæri á að koma með ábendingar til starfsfólks um hvað betur mætti fara í starfi samtakana og hvaða áherslur þeir myndu vilja sjá í því starfi. Afar góður og gagnlegur dagur fyrir samtökin sem skilaði miklu til beggja hópa, stjórnar og starfsmanna. Ákveðið var í kjölfarið að halda reglulega starfsdaga með starfsfólki og stjórn sem mun án efa styrkja samtökin í starfi sínu.