Óskað eftir tilnefningum til Múrbrjótsins!

Frá afhendingu Múrbrjótsins 2019, þar sem þrjú verkefni hlutu viðurkenninguna. Hér eru fulltrúar ver…
Frá afhendingu Múrbrjótsins 2019, þar sem þrjú verkefni hlutu viðurkenninguna. Hér eru fulltrúar verkefnisins „Fegurð í mannlegri sambúð“ sem flutt var á Reykjavík Dance Festival.

*AUÐLESIÐ NEÐST*

Á hverju ári veita Landssamtökin Þroskahjálp viðurkenningu sína, Múrbrjótinn, í tengslum við alþjóðadag fatlaðs fólks 3. desember.

Múrbrjóturinn dregur nafn sitt af því að viðurkenningin er veitt þeim sem að mati samtakanna brjóta niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og stuðla þannig að því að það fái tækifæri til að vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu og til að lifa eðlilegu lífi til jafns við aðra.

Nú leitum við að tilnefningum ykkar fyrir þau sem hafa verið framúrskarandi á árinu þegar kemur að því að brjóta niður múra. Þú getur sent okkur tölvupóst með nafni viðkomandi og rökstuðning. Múrbrjóturinn er veittur til einstaklinga, fyrirtækja, verkefna og stofnana. 

Ábendingar og tillögur skulu sendar á throskahjalp@throskahjalp.is eigi síðar en 15. nóvember.

Stjórn samtakanna velur verðlaunahafann og fær hann Múrbrjótinn afhentan í tengslum við alþjóðadag fatlaðs fólks þann 3. desember.

HÉR má sjá lista yfir fyrri verðlaunahafa.

AUÐLESIÐ

  • Þroskahjálp velur á hverju ári manneskju, félag eða verkefni sem hefur haft áhrif á réttindi fatlaðs fólks og sýnt samfélaginu að fatlað fólk séu virkir þátttakendur í samfélaginu.
  • Sá sem er valinn fær viðurkenningu sem heitir Múrbrjóturinn.
  • Þekkir þú einhvern sem hefur bætt stöðu fatlaðs fólks eða gefið fötluðu fólki tækifæri til að  lifa eðlilegu lífi eins og aðrir í samfélaginu?
  • Þá getur þú sent okkur skilaboð á throskahjalp@throskahjalp.is í síðasta lagi 15. nóvember.
  • Stjórn Þroskahjálpar velur verðlaunahafann og fær sá sem valinn er verðlaun á alþjóðadegi fatlaðs fólks.