Nýr starfsmaður Miðstöðvar um auðlesið mál

 

AUÐLESIÐ

Miðstöð um auðlesið mál býr til auðlesinn texta.

Auðlesinn texti er einfaldari texti. Hann er til dæmis fyrir fatlað fólk sem á erfitt með að lesa.

Auðlesinn texti nýtist öllum, ekki bara fötluðu fólki.

Þroskahjálp sér um Miðstöð um auðlesið mál.

Þroskahjálp finnst mikilvægt að fatlað fólk fái upplýsingar sem það skilur.

Nú er kominn nýr starfsmaður sem hefur það hlutverk að skrifa texta og setja fram upplýsingar sem allir skilja.

Hann heitir Haraldur Civelek. Hann er hönnuður og vanur að skrifa texta. 

Við viljum gera betur þegar við búum til upplýsingar á auðlesnu máli.

Við hjá Þroskahjálp hlökkum til að vinna með Haraldi.

Haraldur Civelek hefur verið ráðinn á skrifstofu Þroskahjálpar til að sinna verkefnum tengdum auðlesnu máli. Haraldur er verðlaunaður hönnuður og á að baki langan feril sem slíkur, er vanur textasmiður og hefur einnig unnið sem ráðgjafi, á auglýsingastofum, sem fagstjóri hjá Listaháskóla Íslands o.fl. 

Haraldur brennur fyrir miðlun upplýsinga á mannamáli og er því kærkomin viðbót við teymi Miðstöðvar um auðlesið mál sem Þroskahjálp rekur og opnaði nú í haust. Auðlesið mál er eitt mikilvægasta tólið til þess að tryggja aðgengi og þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Eftir opnun Miðstöðvar um auðlesið mál í haust hafa beiðnum um þýðingar og aðstoð fjölgað mikið.

 Við bjóðum Harald velkominn til starfa og hlökkum til samstarfsins!