Múrbrjótur - 2017

Jóhanna Sigurðar & María Hreiðarsdóttir
Jóhanna Sigurðar & María Hreiðarsdóttir

Í tilefni alþjóðadags fatlaðs fólks 3. desember veita Landssamtökin Þroskahjálp viðurkenningargrip sinn, Múrbrjótinn.

Múrbrjóturinn dregur nafn sitt af því að viðurkenning þessi er árlega veitt einstaklingum, aðilum eða verkefnum sem að mati Þroskahjálpar brjóta niður múra í réttindamálum fatlaðs fólks.

Viðurkenningargripurinn er smíðaður á handverkstæðinu Ásgarði þar sem fólk með þroskahömlun starfar. Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, afhenti Múrbrjótinn.

María Þ. Hreiðarsdóttir hlýtur Múrbrjótinn árið 2017 fyrir lífssögu sína sem hún segir í bókinni Ég lifði í þögninni.

María skráði lífssögu sína með Guðrúnu Stefánsdóttur og kom bókin út fyrr á þessu ári. Í bókinni segir María frá lífshlaupi sínu allt frá barnaæsku til dagsins í dag, baráttumálum og framtíðardraumum.

María hefur lengi verið virk í réttindabaráttu fatlaðs fólks og var m.a. formaður Átaks, félags fólks með þroskahömlun og barðist þar ötullega fyrir ýmsum réttindum sem ófatlað fólk telur vera sjálfsögð, s.s. réttinum til að stofna fjölskyldu og halda frjósemi sinni og til að hafa mannsæmandi laun fyrir vinnu sína.

Í bókinni er rakin lífssaga mjög merkilegrar og kjarkmikillar konu og er bókin mikilvægt innlegg í umræðuna um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi, ekki síst fólks með þroskahömlun og mikilvægi þess að rödd þessa samfélagshóps heyrist og að á hann sé hlustað.