Marglitur mars hjá Einhverfusamtökunum

Þessa dagana er í gangi verkefnið „Marglitur mars“ á vegum Einhverfusamtakanna, til að vekja athygli á fjölbreytileika einhverfurófsins.

Hugmyndin að baki verkefninu byggir á fjölbreytileika einhverfurófsins og þeirri margbreytilegu listsköpun og frumleika sem þar er að finna. Í forgrunni er fjölbreyttur hópur listafólks og skapandi einstaklinga á einhverfurófi og leyfum við verkum þeirra að tala. Kynning er hafin á listafólkinu og verkum þeirra á samfélagsmiðlum Einhverfusamtakanna og er allur undirbúningur og framkvæmd í höndum einhverfra einstaklinga. 

Í tilkynningu frá Einhverfusamtökunum segir: „Undanfarin ár höfum við orðið vör við aukinn kvíða meðal einhverfra í aðdraganda aprílmánuðar, þar sem mörg okkar upplifa vitundarvakningu tengda bláum lit með neikvæðum hætti. Á alþjóðavísu hefur einhverfusamfélagið valið sér regnbogalitað eilífðarmerki sem einkennistákn, til að endurspegla óendanlegan fjölbreytileika rófsins. “

Listsýning verður haldin 2. og 3. apríl í húsnæði Hamarsins, ungmennahúss, að Suðurgötu 14 í Hafnarfirði og er kynning hafin á listafólkinu á samfélagsmiðlum samtakanna.

Nánari upplýsingar má finna á vef Einhverfusamtakanna.