Mannréttindi og mannvonska

Freyja Haraldsdóttir ásamt lögmönnum sínum hjá Rétti í Hæstarétti. Mynd: Réttur.
Freyja Haraldsdóttir ásamt lögmönnum sínum hjá Rétti í Hæstarétti. Mynd: Réttur.

Mikið hefur verið skrifað um mál Freyju Haraldsdóttur á netinu og ummæli sem hafa verið látin falla vekja óhug hjá fötluðu fólki, aðstandendum þess og öllum sem vinna að réttindabaráttu fatlaðs fólks.

 

Freyja Haraldsdóttir óskaði eftir því að gerast fósturforeldri árið 2014 en var synjað um að sitja námskeið til að meta hæfni hennar til að annast barn. Hún sótti rétt sinn fyrir dómstólum og vann málið í hæstarétti árið 2019 eftir málaferli fyrir bæði héraðsdómi og landsrétti. Síðan hefur hún sótt svo kallað Foster pride námskeið og bárust fréttir þess efnis í gær að hún hefði loks, eftir 7 ára baráttu, verið samþykkt af Barnaverndarstofu.

 

Í dag hafa kommentakerfi fjölmiðla logað og margir telja sig geta ályktað um foreldrahæfni hennar án þess að þekkja hana, þá vitneskju, reynslu og menntun sem hún hefur. Rétt er að minna á að öll njótum við aðstoðar við uppeldi barna okkar, með leikskólum, skólum og framhaldsskólum, au pair, barnfóstrum, starfsfólki í frístund, frá ættingjum og aðstandendum og annars konar þjónustu. Börn fatlaðs fólks njóta þessarar þjónustu eins og önnur börn. Þau hljóta ekki skaða af því að alast upp með stórt og fjölbreytt stuðningsnet, nema síður sé.

Fatlað fólk um allan heim sinnir foreldrahlutverkinu með mikilli sæmd. Margir hafa persónulega aðstoðarmenn sem aðstoða við athafnir daglegs lífs. Það þýðir ekki að aðstoðarfólk séu foreldrar barnanna eða ígildi foreldra. Margir fatlaðir foreldrar hafa NPA aðstoð á Íslandi og því er fásinna að halda því fram að Freyja njóti meiri réttinda en annað fatlað fólk.

 

Fatlað fólk á rétt til fjölskyldulífs og stuðning til þess að vera foreldrar. Það á við um fólk sem hefur líkamlega fötlun en einnig fólk með þroskahömlun. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er kveðið á um þennan rétt og rétt fólks til þess að ættleiða og taka í fóstur börn.

 

Fordómarnir, fyrirlitningin og á stundum hatrið sem Freyja Haraldsdóttir hefur mætt í þessu ferli er áfellisdómur um íslenskt samfélag og sýnir okkur hve skammt á veg það er komið í vitundarvakningu um líf og getu fatlaðs fólks en einnig hvað varðar réttindi og sjálfstæði fatlaðs fólks.

 

Rétt er að minnast á frumvarp um hatursorðræðu sem liggur fyrir Alþingi. Þar verður tryggð vernd fatlaðs fólks gegn hatursorðræðu og vona Landssamtökin Þroskahjálp að það frumvarp verði að lögum sem allra fyrst.

 

Landssamtökin Þroskahjálp óska Freyju Haraldsdóttur innilega til hamingju með þennan mikilvæga sigur í þessari löngu og erfiðu mannréttindabaráttu sem hún hefur háð af aðdáunarverðu hugrekki og þrautseigju, ekki aðeins fyrir sjálfa sig heldur allt fatlað fólk. Á hún miklar þakkir skildar.