Málþing: Vefhönnun og siðfræði við hönnun þjónustu- og tæknilausna

Ský, félag fólks og fyrirtækja í upplýsingatækni, stendur fyrir málþingi um vefhönnun, siðfræði og aðgengismál. Þroskahjálp tekur þátt í málþinginu.

Vefurinn er eitt lykilatriða þess að fylgjast með því sem er að gerast í samfélaginu. Verslun og þjónusta í bland við almennar upplýsingar og afþreyingu hefur í auknum mæli færst yfir á vefinn. En hverjir geta tekið þátt? Hvenær er verið að hanna fyrir notandann og er ásættanlegt að hanna lausnir fyrir suma en ekki alla? Er algild hönnun möguleg eða skylda?

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, verkefnastjóri Þroskahjálpar, talar á málþinginu og fjallar þar um hvernig oft er rætt um tæknilausnir og stafræna framþróun eins og stóra lykilinn að samfélagi án hindrana. Miklar vonir eru bundnar við snjöll hjálpartæki, raddstýringar, tækni sem ekki geri mannamun og fleiri lausnir sem bæði eigi að einfalda líf fólks og lækka kostnað í velferðarþjónustu. Inga mun segja frá reynslu fatlaðs fólks, og sér í lagi fólks með þroskahömlun, af þessari nýju veröld.

Þroskahjálp hefur verið leiðandi afl í baráttunni fyrir aðgengi fólks með þroskahömlun að stafrænum heimi, og þar með talið að rafrænum skilríkjum. Skyldur stjórnvalda eru ríkar og það er ólíðandi að stafræn framþróun haldi áfram af fullum þunga, án þess að tryggja að réttindi og þarfir fatlaðs fólks séu tryggðar.

Frekari upplýsingar og skráningar á vef Ský.