Líðan þjóðar á tímum COVID-19

 

AUÐLESIÐ

 • Kórónaveiran (COVID-19) hefur mikil áhrif á líf okkar. Það hefur áhrif á okkur sjálf og á allt samfélagið.

 • Það er mikilvægt að rannsaka hvernig ástandið í samfélaginu hefur áhrif á okkur.

 • Háskóli Íslands, landlæknir og sóttvarnalæknir ætla að rannsaka þetta. 

 • Að rannsaka þýðir að skoða hluti af mikilli nákvæmni.

 • Þessi rannsókn er líka gerð í útlöndum. 

 • Til að taka þátt þarf maður að hafa rafræn skilríki eða íslykil og vera 18 ára eða eldri.

 • Skoða á hvort ástandið í samfélaginu hefur áhrif á það hvernig okkur líður.

 • Skoða á hverjum líður illa.

 • Skoða hvort það hefur áhrif á okkur í framtíðinni ef okkur líður illa núna.

 • Rannsóknin á líka að hjálpa okkur að hugsa vel um geð-heilsuna okkar. Geð-heilsa þýðir hvernig heilsan okkar er andlega.

 • Rannsóknin er mikilvæg til að hægt sé að læra af ástandinu í samfélaginu.

 • Þessi rannsókn er nafnlaus. Það er ekki hægt að sjá hverju þú svarar. 
 • Þú getur smellt hér til að taka þátt. Fáðu einhvern sem þú treystir til að aðstoða þig ef þú þarft þess.

 • Ef þú átt ekki rafræn skilríki eða íslykil geturðu beðið einhvern sem þú treystir til að aðstoða þig.

 • Þroskahjálp hvetur ALLT fatlað fólk til þess að taka þátt og láta rödd sína heyrast. Það er mikilvægt að yfirvöld (þau sem stjórna samfélaginu) heyri skoðanir fatlaðs fólks og fötluðu fólki líður.

 

Líðan þjóðar á tímum COVID-19 er vísindarannsókn á vegum Háskóla Íslands, Embættis landlæknis og sóttvarnalæknis sem miðar að því að auka þekkingu á áhrifum faraldursins á líðan og lífsstíl landsmanna. Rannsóknin er hluti af alþjóðlegu rannsóknarverkefni á þessu sviði og er opin öllum einstaklingum 18 ára og eldri sem hafa rafræn skilríki eða íslykil.

 

Leitast verður við að svara eftirfarandi spurningum:

 • Hver eru áhrif COVID-19 faraldursins á einkenni streitu, sálræna líðan og lífsstíl landsmanna?
 • Tengist saga um sjúkdóma og aðra áhættuþætti, staðfest COVID-19 smit, sóttkví, einangrun eða breytingar á efnahag og daglegu lífi aukinni streitu, slakari líðan og lífsstíl?
 • Hafa sterk streitu- og geðræn einkenni á þessum óvissutímum faraldursins viðtækari áhrif á heilsufar til lengri tíma?

 

Verkefnið miðar einnig að því að miðla almennum upplýsingum til þátttakenda og allra landsmanna um geðrækt og hvert hægt er að leita til að fá stuðning og geðheilbrigðisþjónustu á þessum óvissutímum.

Væntingar standa til þess að rannsóknin muni gefa skýr svör við ofangreindum spurningum en slík þekking er mikilvæg yfirvöldum við skipulag heilbrigðisþjónustu og almannavarna á tímum samfélagslegra áfalla á borð við heimsfaraldurinn COVID-19.

Landssamtökin Þroskahjálp hvetja allt fatlað fólk til að taka þátt og láta rödd sína heyrast, enda afar mikilvægt að reynsla fatlaðs fólk sé tekin með í myndina þegar áhrif COVID-19 eru metin. Þú getur smellt hér til að taka þátt. Fáðu einhvern sem þú treystir til að aðstoða þig ef þú þarft þess.

Landssamtökin Þroskahjálp brýna einnig fyrir aðstandendum og starfsfólki í félags- og velferðarþjónustu hve mikilvægt það er að allt fatlað fólk hafi rödd í rannsókn sem þessari. Leita verður leiða til þess að tryggja aðstoð og stuðning til þess að þeir sem þurfa aðstoð fái hana.