Kraftmikil þátttaka á barnaþingi

Elín Elísabet Einarsdóttir og Rán Flygenring teiknuðu umræður á barnaþingi. Myndina teiknaði Elín El…
Elín Elísabet Einarsdóttir og Rán Flygenring teiknuðu umræður á barnaþingi. Myndina teiknaði Elín Elísabet. Birt með leyfi höfundar.

Dagana 3. og 4. mars var Barnaþing Umboðsmanns barna haldið í Hörpu. Þroskahjálp hefur átt aðild að þinginu frá upphafi með tilnefningu fatlaðra barna, og tryggja þannig að rödd þeirra fái að heyrast og þau fái stuðning og aðstoð til fullrar þátttöku.  

Markmið barnaþings er að efla lýðræðislega þátttöku barna og virkja þau í umræðu um málefni er varða þau. Barnaþing á að vera valdeflandi og jákvæð reynsla fyrir börnin. Tillögur barnanna um mannréttindi, umhverfismál og skólamál voru afhentar ríkisstjórninni í lok þings. Öll hugmyndavinna barnanna verður nýtt í skýrslu sem Umboðsmaður barna mun nota í starfi sínu til þess að auka réttinda barna á Íslandi. 

Öll börn sem koma á þingið eru valin með slembiúrtaki og eiga þannig að endurspegla margbreytileika barna á Íslandi, en börn hafa mismikil tækifæri og stuðning til þátttöku og því átti Þroskahjálp frumkvæði að því að fá að tilnefna fötluð börn til þátttöku og veita þeim stuðning til þess, svo þeirra mikilvæga rödd heyrðist örugglega, á fyrsta barnaþinginu árið 2019. Þetta reyndist afar mikilvægt því tillögurnar sem lagðar voru fram í lok þings 2019 fjölluðu meðal annars um réttindi fatlaðra barna, og umtalað var að þátttaka þeirra jók skilning og þekkingu annarra barna á þinginu um reynsluheim fatlaðra barna.

Í ár tóku fimm börn þátt í þinginu sem tilnefnd voru af Þroskahjálp og sátu á fundum samráðshóps barna hjá Umboðsmanni barna. Samráðshópurinn leggur hugmyndir á borðið er varðar skipulagninguna á Barnaþingi 2022, allt frá því að gefa fullorðna fólkinu á þinginu hugmynd um það hvernig það á að haga sér, í aðgengismál og vellíðan barna á þinginu. Þátttaka fatlaðra barna í skipulagningunni á þinginu skilaði sér í enn meiri inngildingu, aðgengi og öruggara rými fyrir öll börn á Barnaþingi 2022. 

Salvör Nordal umboðsmaður barna ásamt starfsfólki skrifstofunnar halda utan um þingið með hjálp frá ráðstefnustjórum.

Andrea Rói Sigurbjörns heldur utan um þátttöku fatlaðra barna á Barnaþing 2022 fyrir hönd Þroskahjálpar. Með Andreu Róa á þinginu voru fimm úr hópi starfsfólks sumarbúðanna Reykjadals sem SLF rekur. Starfsfólk Reykjadals var stuðningur fyrir yfir 10 þingbörn sem voru með stuðningsþarfir.

Þingið gekk vonum framar að sögn Andreu Róa, með yfir 120 barnaþingmönnum. „Hvert borð kom með eitt áhersluatriði og spurningu fyrir ráðherrana í lok þingsins og alla vega þrjú þeirra voru beintengd málefnum fatlaðs fólks: aðgengi að menntun fatlaðra barna, táknmálskennsla og aðgengi að byggingum og fengu ráðherrar þetta beint upp á svið til sín. Einnig var mikið talað um að auka fræðslur í skólum um stöðu jaðarsetta hópa á Íslandi.“

Landssamtökin Þroskahjálp þakka börnunum, starfsfólki og Umboðsmanni barna fyrir frábæra vinnu til þess að auka þekkingu á réttindum og hagsmunum fatlaðra barna og vinna að betri heimi fyrir öll börn.

 Skýrsla Umboðsmanns barna um þingið verður birt á næstunni.