Hvað ræður þínu atkvæði?

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir og Árni Múli Jónasson
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir og Árni Múli Jónasson

Kosningapróf fjölmiðla fyrir sveitarstjórnarkosningarnar afhjúpa það sem margt fatlað fólk hefur lengi vitað: að lítill áhugi er fyrir mannréttindum fatlaðs fólks meðal kjósenda, hins opinbera og fjölmiðla.

Í könnun sem Prósent framkvæmdi fyrir Fréttablaðið voru kjósendur spurðir að því hve mikilvæga þeir teldu ákveðna málaflokka. Engin spurning var um málaflokk fatlaðs fólks.

Sama er uppi á teningnum í kosningaprófum Ríkisútvarpsins og Stundarinnar, þar sem engin spurning varðar fatlað fólk.

Sveitarfélög sinna umfangsmikilli þjónustu við fatlað fólk og ber lögboðin skylda til þess að standa við bæði íslensk lög og skuldbindingar vegna fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þrátt fyrir það fær málaflokkurinn litla athygli í opinberri umræðu, nema helst sé til þess að ræða hve sligandi málaflokkurinn er fyrir sveitarfélög. Alltaf virðast þó vera fjármunir til að lofa gjaldfrjálsum leikskólum og nýjum íþróttahöllum, sem vissulega má færa rök fyrir að séu mikilvæg mál, en þau eru ekki lögboðin skylda.

Fatlað fólk á betra skilið en að fá aðeins pláss í umræðunni þegar ræða á krónur og aura, en að umræðan komist aldrei á það plan að ræða framtíðarsýn, betri þjónustu og hvernig eigi að innleiða þau ákvæði sem samningur SÞ telur á um. Andleysið í málaflokknum er algjört og fatlað fólk málað upp sem byrði, eins og það að veita framúrskarandi þjónustu til fatlaðs fólks sé eins og að taka tappann úr baðkari sjóða sveitarfélaga.

Fjölmiðlar hafa skyldum að gegna gagnvart fötluðu fólki samkvæmt samningi SÞ, og er RÚV þar með sérstaka skyldu sem ríkisfjölmiðill. Þessari skyldu hefur verið mætt að litlu leyti. Fatlað fólk á betra skilið!

Landssamtökin Þroskahjálp skora á kjósendur að láta mannréttindi eins berskjaldaðasta hóps samfélagsins ráða atkvæði sínu.

Inga Björk er verkefnastjóri hjá Landssamtökunum Þroskahjálp. Árni Múli Jónasson er framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.

 

Greinin birtist fyrst á Vísi.is