Hvað er planið?

Lára Þorsteinsdóttir á sér draum um að verða sagnfræðingur.
Lára Þorsteinsdóttir á sér draum um að verða sagnfræðingur.

Hvað er planið? Er yfirskrift herferðar sem hefst í dag. Þar varpa Landssamtökin Þroskahjálp ljósi á stöðu fatlaðra ungmenna þegar kemur að námstækifærum að loknu námi af starfsbrautum framhaldsskólanna. Ungmennin sem koma að herferðinni eiga öll sína drauma og þrár og deila þeim með okkur næstu daga.

SKOÐA HVAÐ ER PLANIÐ?

Á hverju ári útskrifast 65-90 fötluð ungmenni af starfsbrautum framhaldsskólanna. Þessi ungmenni hafa farið í gegnum skólakerfið frá leikskóla yfir ígrunnskóla og standa á sömu tímamótum og ófatlaðir jafnaldrar við útskrift úr framhaldsskóla. Eftirvænting og tilhlökkun ætti að vera þeim efst í huga líkt og annarra ungmenna en fyrir flesta er það því miður ekki staðan. Menntakerfið okkar skapar ekki rými fyrir alla, bara suma. 

Fötluð ungmenni gera þá kröfu að hafa sömu tækifæri og önnur ungmenni, og draga fram þann fáránleika sem samfélagið hefur viðhaldið allt of lengi. Skilaboðin eru einföld og skýr: það er kominn tími til þess að breyta þessu. Á sama tíma verður atvinnulífið og hið opinbera að taka höndum saman og vera tilbúin til að taka á móti fötluðu fólki á vinnumarkaðinn. Mikilvægt er að tryggja fötluðu fólki góð og spennandi störf, og viðeigandi stuðning til þess að sinna þeim.

Í herferðinni segja 4 einstaklingar frá draumum sínum um frekari menntun, sem þau hafa ekki tækifæri til þess að sækja. Anna Rósa, sem vill verða sundþjálfari, Lára, sem vill verða sagnfræðingur, Þórir sem vill fara í Listaháskóla Íslands og Finnbogi, sem vill verða fréttamaður. 


Með herferðinni er undirskriftasöfnun sem verður send á ríkisstjórn Íslands og Samtök atvinnulífsins til þess að hvetja til þess að breytingar verði gerðar til að tryggja fólki betri tækifæri til náms og atvinnu.

SKOÐA HVAÐ ER PLANIÐ?