Handbók um barnalög komin út

Á dögunum kom út endurskoðuð útgáfa af Handbók um barnalög sem rituð er af Hrefnu Friðriksdóttur. Handbókin er ætluð þeim sem hafa áhuga á að kynna sér lögin, túlkun þeirra og helstu forsendur sem þau grundvallast á.

Handbókin, sem er á rafrænu formi, er yfirgripsmikil og ítarleg og hana má nálgast á vef stjórnarráðsins.

Þroskahjálp leggur mikla áherslu á að tryggja að fötluð börn fái tækifæri til þess að blómstra og taka þátt í samfélaginu. Ungmennaráð Þroskahjálpar er vettvangur þar sem ungt fatlað fólk hefur tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og vera samtökunum til leiðsagnar. Jafnframt er það eitt af hlutverkum samtakanna að tala máli allra fatlaðra barna, meðal annars í samtali við stjórnvöld, því íslenskum stjórnvöldum ber jú skylda til þess að tryggja velferð, tækifæri og réttindi þeirra til jafns við jafnaldra sína samkvæmt íslenskum lögum, barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Fötluð börn eru því miður mjög berskjaldaður hópur í samfélaginu og eru í aukinni hættu á að búa við mismunun, aðskilnað, ofbeldi, skort á tækifærum og aðra jaðarsetningu. Það er verkefni okkar allra að vinna gegn því.