Hækkun frítekjumarks öryrkja loks samþykkt

Í gær var frumvarp Guðmundar Inga, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um hækkun frítekjumarks örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega samþykkt á Alþingi. Þessi breyting felur í sér að frítekjumarkið nánast tvöfaldast og fer úr 110.000 krónum á mánuði upp í 200.000 krónur á mánuði. 

Landssamtökin Þroskahjálp fagna þessum áfanga, en samtökin hafa lengi bent á nauðsyn þess að ráðast í þessar hækkanir. Þetta er fyrsta hækkunin á frítekjumarkinu sem hefur átt sér stað frá árinu 2009.

Um hækkunina segir Guðmundur Ingi, félags- og vinnumarkaðsráðherra: 

„Hækkunin markar vatnaskil. Þetta er auk þess gríðarlega mikilvægur áfangi í að endurskoða í heild sinni örorkulífeyriskerfið á Íslandi. Því kerfi vil ég og ætla að ná að umbylta,“ 

Við tökum undir þessi orð ráðherra um að nauðsynlegt sé að endurskoða og umbylta örorkulífeyriskerfinu á Íslandi. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við ráðherra um þessi mál og munum halda áfram að beita okkur fyrir því að örorkulífeyriskerfið taki betur mið af því fólki sem það á að þjónusta.