Gunnar Þormar látinn

Gunnar Þormar, tannlæknir og fyrsti formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.
Gunnar Þormar, tannlæknir og fyrsti formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Gunnar Þormar tannlæknir og fyrsti formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar er látinn. Gunnar tók ríkan þátt í stofnun samtakanna allt frá byrjun og var kosinn fyrsti formaður þeirra árið 1976 .

Alla tíð fylgdist hann vel með starfsemi samtakanna og var óragur við að segja skoðanir sínar til lofs eða lasts. Gunnar barðist mjög fyrir bættri tannlæknaþjónustu við fólk með þroskahömlun og starfaði sjálfur til margra ára, sem sérhæfður tannlæknir fyrir fólk með þroskahömlun.

Gunnar sat um árabil í stjórn húsbyggingasjóðs Þroskahjálpar. Þar tók hann þátt í að móta þá stefnu sjóðsins að húsnæði sem ekki væri nógu gott fyrir alla, væri ekki boðlegt fyrir fatlað fólk heldur. Enn þann dag í dag þarf því miður of oft að ítreka þetta.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka Gunnari starf í þágu samtakanna og mikilvægt framlag í baráttunni fyrir réttindum fólks með þroskahömlun og votta aðstandendum hans samúð sína.