Friðrik handhafi kærleikskúlunnar!

Þau Steinunn Ása, Ásgeir, Elva, Friðrik, Magnús, Hörður, Katrín og Andri Freyr komu Friðriki á óvart…
Þau Steinunn Ása, Ásgeir, Elva, Friðrik, Magnús, Hörður, Katrín og Andri Freyr komu Friðriki á óvart í dag! Mynd: SLF
Friðrik Sigurðsson, fyrrum framkvæmdastjóri og núverandi verkefnastjóri Þroskahjálpar, er handhafi Kærleikskúlu Styrktarfélags lamaðara og fatlaðra í ár. Friðrik hlýtur kærleikskúluna fyrir frumkvöðlastörf í réttindabaráttu fatlaðs fólks!
 
Kærleikskúlan er veitt fyrir störf í þágu fólks með fötlun af Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra. Friðrik er þroskaþjálfi og starfaði um árabil sem framkvæmdastjóri Þroskahjálpar og er enn við störf hjá samtökunum, sem verkefnastjóri og ómetanlegur reynslu- og þekkingarbrunnur.
 
Segir í tilkynningu Styrktarfélagsins að dæmi um frumkvöðlastörf Friðriks séu að koma að stofnun hátíðarinnar List Án Landamæra, en hann er verndari hátíðarinnar. Hann stóð einnig að stofnun Átaks félag fólks með þroskahömlun og er heiðursfélagi í samtökunum. Friðrik átti líka hugmyndina að hinum margverðlaunuðu þáttum Með okkar augum. Hann kom einnig að stofnun sendiherra um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
 
Í tilkynningunni segir að Friðrik sé „ötull baráttumaður og frumkvöðull í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Hann hefur aldrei hætt baráttunni og er enn fullur af eldmóð og er sannarlega verðugur handhafi Kærleikskúlunnar.“
 
Við tökum sannarlega undir þetta og óskum Friðriki til hamingju!