Fresta lokun á Íslyklinum!

Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta lokun á Íslyklinum fram á seinni hluta ársins 2024.

Sjá frétt um frestun á Ísland.is

 

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því mjög að fallið hefur verið frá þeim áformum að hætta notkun Íslykils til rafrænnar auðkenningar um áramót.

Samtökin hafa lengi barist fyrir leiðréttingu á þeirri mismunun sem leiðir af því að ekki geta allir fengið rafræn skilríki og höfðu miklar áhyggjur af því að íslykillinn yrði tekinn úr notkun áður en aðgengi að þjónustu fyrir þá sem hafa ekki aðrar auðkenningarleiðir hefur verið tryggt.

Þetta er mikilvægur áfangasigur fyrir okkur og Þroskahjálp mun halda áfram að krefjast þess að öll stafræn, opinber þjónusta verði aðgengileg fyrir öll.

Nú er að störfum hópur á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins um þróun á lausnum að rafrænu aðgengi fyrir fatlað fólk og á Þroskahjálp fulltrúa í hópnum.

Til stendur að hópurinn skili af sér tillögum í upphafi næsta árs og Þroskahjálp bindur vonir við að gerðar verði nauðsynlegar úrbætur á stafrænni þjónustu í framhaldinu.