Fjölgun atvinnutækifæra ungs fólks með þroskahömlun

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Unnur Helga Óttarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason við undirritun samko…
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Unnur Helga Óttarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason við undirritun samkomulagsins.
Mennta- og barnamálaráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hafa ákveðið að veita Þroskahjálp viðbótarstyrk til samhæfingar upplýsinga um námsframboð og atvinnutækifæri. 
 
Landssamtökin Þroskahjálp hafa undanfarið ár unnið að verkefni um kortlagningu náms- og atvinnutækifæra fyrir ungt fólk með þroskahömlun og kynningu fyrir nemendur sem eru að ljúka námi á starfsbrautum framhaldsskóla. Verkefnið hefur enn fremur stuðlað að mikilvægu samstarfi og samtali aðila um atvinnutækifæri fatlaðs fólks.
 
Styrkurinn er liður í stefnu stjórnvalda að fjárfesta í fólki og fjölga markvisst atvinnutækifærum einstaklinga með mismikla starfsgetu. 

Verkefnið hófst árið 2020 með styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu og félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Það var ein af tillögum verkefnahóps á vegum þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneytis sem fjallaði um úrbætur í menntun, atvinnu og tómstundum fyrir nemendur sem lokið hafa námi á starfsbrautum framhaldsskóla.
Viðbótarstyrkurinn nemur um 17 mkr. til áframhaldandi þróunar verkefnisins á árunum 2023–2024.
 
Sara Dögg, Guðmundur Ingi, Unnur Helga og Ásmundur Einar sitja saman við borð. Í kringum þau er mikill gróður. Þau brosa og fyrir framan þau eru blöð til að undirrita.
 
Sara Dögg Svanhildardóttir, Guðmundur Ingi Guðbrandsson,
Unnur Helga Óttarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason við undirritun samkomulagsins.

„Aðgangur ungs fólks með mismikla starfsgetu að námi við hæfi er forsenda þess að blómstra í lífi og starfi og skapa greiðfæra brú inn á vinnumarkaðinn. Aukin þátttaka leiðir til aukinnar farsældar þeirra og samfélagsins alls.“ - Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
„Eitt af markmiðum mínum sem ráðherra félags- og vinnumarkaðar er að gera vinnumarkaðinn aðgengilegan fyrir fleiri, þ.m.t fólk sem hefur minni starfsgetu. Til að ná því markmiði er mikilvægt að auka stuðning og fjölga starfstækifærum. Það er því afar ánægjulegt að geta tryggt áframhaldandi samstarf okkar um verkefnið.“ - Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Landssamtökin Þroskahjálp eru afar þakklát fyrir stuðninginn sem þau fá hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og mennta- og barnamálaráðuneytinu í tengslum við verkefnið um námsframboð og atvinnutækifæri fatlaðs fólks. Margt gott hefur áunnist undanfarið og mikilvægt er að halda áfram vegferðinni til þess að auka tækifærin á námi og atvinnumöguleikum. Það eru svo sannarlega spennandi verkefni framundan.
 
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar, sagði við tilefnið: „Menntun er lykill að atvinnutækifærum og það verður enn mikilvægara í nánustu framtíð, þegar gervigreind og aukin sjálfvirknivæðing eru að útrýma störfum sem ekki krefjast sértækrar hæfni og þekkingar. Okkar tilfinning er að vitundarvakning sé hjá almenningi um réttindi fatlaðs fólks og munum við vinna áfram í sameiningu að brjóta niður manngerða múra. Eins og segir í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna: Skiljum engan eftir.“