Fatlað fólk skilið eftir í áformum um sumarnám fyrir framhalds- og háskólanema

Mynd: Pixabay
Mynd: Pixabay

Á dögunum kynnti mennta- og menningarmálaráðherra sumarnám í framhalds- og háskólum sem er liður í aðgerðunum stjórnvalda til að sporna gegn atvinnuleysi og efla virkni og menntun meðal ungs fólks og atvinnuleitenda. Alls er ráðgert að verja um 500 milljónum króna til að efla sumarnám í háskólum og 117 milljónum kr. til sumarnáms á framhaldsskólastigi.

Landssamtökin Þroskahjálp telja miður að þessar aðgerðir taka ekki tillit til þarfa ungs fólks með þroskahömlun sem stundar nám á starfsbrautum. Þá sætir það furðu að ekki sé gert ráð fyrir fjármagni í þær menntastofnanir sem þó eru að bjóða upp á sértækt námsframboð á öðrum skólastigum líkt og Fjölmennt símenntunar og þekkingarmiðstöð fyrir fatlað fólk. Þá gera sárafá tækifæri fólks með þroskahömlun til háskólanáms það að verkum að þau eru sjálfkrafa útilokuð frá námskeiðum á háskólastiginu.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir vonbrigðum með að tækifæri ungs fólks með þroskahömlun séu ekki tryggð til jafns við aðra og krefjast þess að úr því verði bætt.