Fatlað fólk situr eftir í stafrænni framþróun

Félags- og heilbrigðisráðherrar á Norðurlöndunum skrifuðu um daginn undir yfirlýsingu um að tryggja aðgengi að stafrænum lausnum. Þetta er hluti af markmiðum um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030 og segja ráðherrarnir að þessi þáttur sé lykilatriði í þeirri vegferð. Hægt er að lesa tilkynningu frá Stjórnarráðinu um undirritun yfirlýsingarinnar hér:

Lesa frétt

Landssamtökin Þroskahjálp fagna þessari sameiginlegu yfirlýsingu enda löngu augljóst að margir hópar fatlaðs fólks hafa setið eftir í stafrænni framþróun síðustu ára. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er skýr þegar fjallað er um aðgengi að samfélagslegri þátttöku, opinberri þjónustu og tækninýjungum. Íslensk stjórnvöld brjóta mannréttindi þegar fötluðu fólki er ekki gert kleift að nýta sér nauðsynlega tækni.

Mörg dæmi eru um að fólk fái ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu, fjármunum sínum og þurfi að eyða miklum tíma og fjármunum til þess að fá opinbera þjónustu sem við öll teljum sjálfsagða!

Landssamtökin Þroskahjálp hafa þungar áhyggjur af stöðunni og hafa fundað með ráðuneytum og opinberum aðilum til þess að reyna að fá hreyfingu á málin, því miður með litlum árangri. Stafræn framþróun er á fleygiferð og mun hafa áhrif á æ fleiri þætti lífs almennra borgara. Það er því lykilatriði að stjórnvöld doki við og tryggi að allir séu með í þessari vegferð.

„Við viljum að fatlað fólk geti nýtt sér tæknina í samskiptum við fyrirtæki, stofnanir og fleiri eins og öll önnur. Fatlað fólk á ekki að sitja eftir,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra við tilefnið og treysta Landssamtökin Þroskahjálp á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur setji nú málið í forgang, þvert á ráðuneyti!