ELKO styrkir sýndarveruleikaverkefni Þroskahjálpar og Virtual Dream Foundation

 

AUÐLESIÐ

  • Þroskahjálp er að vinna að verkefni með manni sem heitir Piotr Loj þar sem við notum sýndarveruleika.Maður með sýndarveruleikagleraugu
  • Sýndarveruleiki er þegar við setjum tölvu-gleraugu yfir augun á okkur og sjáum þá nýjan heim með hjálp tækni.
  • Það eru endalaus tækifæri með sýndarveruleika.
  • Til dæmis getur fólk skoðað önnur lönd og staði á jörðinni, læknar geta æft sig, við getum spilað tölvuleiki og margt fleira.
  • Þroskahjálp er að vinna að verkefni með Piotr sem snýst um að fatlað fólk geti æft sig í að gera hluti sem þeim finnst erfiðir eða ógnvekjandi.
  • Verkefnin sem Þroskahjálp er að vinna með Piotr núna eru að:
    • Æfa sig að taka strætó,
    • Æfa sig að fara og kjósa,
    • Æfa sig að fara í sumarbúðirnar Reykjadal,
    • Æfa sig að fara í Bjarkahlíð. Þar fær fólk aðstoð ef það hefur orðið fyrir ofbeldi.
  • Þroskahjálp byrjaði að vinna með Piotr því hann vildi gera sýndarveruleika um eldgosið í Geldingardölum og vildi fá hjálp frá Þroskahjálp.
  • ELKO, sem er búð sem selur allskonar tæknivörur og tölvuvörur, var að gefa verkefninu 7 sýndar-veruleika gleraugu.
  • Við þökkum ELKO kærlega fyrir að hjálpa okkur að vinna að þessu mikilvæga verkefni.

Undanfarna mánuði hafa Landssamtökin Þroskahjálp unnið að spennandi verkefni í samstarfi við Piotr Loj, frumkvöðul á sviði sýndarveruleika og eiganda Virtual Dream Foundation.

Verkefnið, sem var styrkt af félagsmálaráðuneytinu, felst í því að búa til sýndarveruleika þar sem fólk með þroskahömlun getur æft sig í að framkvæma athafnir sem virðast framandi og jafnvel ógnvekjandi í fyrstu. Í sýndarveruleika er hægt að æfa sig aftur og aftur við öruggar aðstæður þangað til viðkomandi öðlast öryggi til að stíga skrefin í raunveruleikanum.

Gerðir voru sýndarveruleikar um hvernig það er að fara að kjósa, taka strætó, mæta í sumarbúðir og leita sér aðstoðar eftir að vera þolandi ofbeldis. Þættirnir voru unnir í samvinnu við kjörstjórn í Reykjavík, Strætó, Reykjadal og Bjarkarhlíð.

Tækifæri til að styðja við fatlað fólk

Strákur stendur inni í gróðurhúsi með sýndarveruleikagleraugu á höfðinu og horfir upp í loft. Tveir strákar sitja fyrir aftan hann á stólum. Piotr Loj stendur hjá honum.Anna Lára Steindal, tengiliður verkefnisins hjá Þroskahjálp, segir að verkefnið hafi farið af stað á síðasta ári þegar Piotr Loj, stofnandi Virtual Dream Foundation, óskaði eftir aðstoð við verkefni sem fólst í því að fara hringinn í kringum landið með upplifun af eldgosinu í Geldingardölum í sýndarveruleika. Þannig vildi Piotr gera þeim sem ekki geta gengið að gosinu mögulegt að upplifa það með sýndarveruleika. Sú ferð var farin sumarið 2020 og tókst mjög vel.

„Við hjá Þroskahjálp sáum strax möguleika þessarar tækni til styðja og þjálfa fólk með þroskahömlun, en Piotr hefur unnið fjölda verkefna sem lúta að endurhæfingu fyrir fólk sem glímir við áskoranir vegna hreyfihömlunar. Hann hefur til dæmis verið að vinna með Guðmundi Felix sem fékk fyrstur manna græddar á sig nýjar hendur. Einnig hefur hann unnið með Læknum án landamæra og Alþjóðaráði Rauða krossins að þjálfun starfsfólks sem þarf að takast á við krefjandi og erfiðar aðstæður.“ segir Anna Lára.

Samstarf við ELKO

Í síðustu viku barst verkefninu rausnarlegt framlag frá ELKO sem gaf sjö sýndarveruleikagleraugu, sem verða notuð til þess að sem flestir eigi kost á því að taka þátt í verkefninu. Þetta framlag er dýrmætt og mun gefa enn fleiri aðilum kost á æfa sig í að stíga þessi skref til sjálfstæðis. Við þökkum ELKO innilega fyrir stuðninginn!