Dagur íslenskrar tungu - Þarf íslenska að vera svona flókin?

Sunna Dögg Ágústsdóttir, verkefnastjóri ungmennaráðs Þroskahjálpar, flutti þetta erindi í útvarpsþættinum Uppástand

Þegar við tölum um aðgengi tölum við yfirleitt ekki um aðgengi að upplýsingum.  

Flest okkar hafa örugglega heyrt talað um að fullorðið fólk horfi á krakkafréttir til þess að skilja almennilega hvað þjóðin sé ræða í þetta sinn. Fyrir mörgum er þetta bara brandari, en fyrir mér sýnir þetta hvað við sem þjóð erum gjaldþrota þegar það kemur að aðgengi að upplýsingum sem eru auðveldar að skilja og melta. Við höfum ákveðið sem samfélag að því flóknari íslensku sem einhver einstaklingur talar, því meira virði sé hann. Með þessari ákvörðun höfum við skilið eftir meirihluta þjóðarinnar þegar að kemur að frjálsu flæði upplýsinga.  

Ég tala sem manneskja sem hefur verið kölluð heimsk fyrir að skilja ekki flókna íslensku.

Af hverju er það eðlilegt í okkar samfélagi að ýta niður fólki eins og mér?
Af hverju er okkur kennt að þegja í staðinn fyrir að spyrja?
Af hverju er það í lagi að kalla mig heimska svo að Jóni úti í bæ geti liðið eins og hann sé klár?

Ég var einu sinni svo hugfangin af íslenska tungumálinu, sú ást hvarf fyrir nokkrum árum þegar ég áttaði mig á því að upplýsingar eru miklu aðgengilegri fyrir mig á ensku, jafnvel þó að íslenska sé móðurmál mitt. Ég þekki mikið af fólki sem upplifir það sama.

Þegar fólk spyr sig af hverju flestir krakkar í dag hafi lítinn áhuga á því að tala „góða” íslensku, segi ég þetta: „vegna þess að fólkið með völdin vil ekki leyfa íslenskunni að þróast og breytast eins og öll önnur tungumál.”  Eina ástæðan fyrir því hvað íslenskan hefur lítið breyst í gegnum aldirnar er sú að ísland var einangrað. Tímarnir hafa breyst, leyfið tungumálinu að breytast líka.  

En aftur að aðalvandamálinu; íslenska tungan eins og við beitum henni í dag er ekki aðgengileg. Það sem mörg okkar gleyma er að með því að tala flókna íslensku erum við að lyfta okkur sjálfum upp með því að þrýsta öðrum niður. Við erum að ýta undir jaðarsetningu annars fólks og það er aldrei í lagi.

Eitt það mikilvægasta sem við eigum sem manneskjur eru upplýsingar, svo hvers vegna hjálpum við ekki hvor öðru að afla upplýsinga á aðgengilegan hátt? Er það vegna þess að við sjáum fólk sem skilur ekki flókna íslensku sem óæðri? Það hljómar svo sannarlega þannig.

Sannleikurinn er þessi: Það eru ekki aðeins fatlað fólk og innflytjendur sem mundu græða ef við reyndum aðeins að einfalda mál okkar, við mundum öll græða á því.