Breytingar á örorkulífeyriskerfinu samþykktar á Alþingi

Um helgina samþykkti Alþingi frumvarp um breytingar á örorkulífeyriskerfinu.
 
Þetta eru umfangsmiklar breytingar sem felast í því að kerfið er einfaldað og gert notendavænna fyrir fatlað fólk, hvatar auknir til atvinnuþátttöku og dregið verður úr tekjuskerðingum.
Breytingarnar taka gildi 1. september 2025.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna þessum kerfislegu breytingum en við hefðum sannarlega viljað sjá meiri hækkun á kjörum fatlaðs fólks sem að fær einungis örorkulífeyrisgreiðslur frá TR og hefur ekki tækifæri vegna fötlunar sinnar að auka við tekjur sínar á vinnumarkaði.

Samkvæmt upplýsingum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu munu greiðslur til 95% örorkulífeyrisþega hækka með gildistöku laganna.

En við vekjum athygli á því að einstaklingur sem að fær fyrsta örorkumat við 18 ára aldur og býr einn hækkar ekki um nema 10.020 krónur fyrir skatt. Þá tekur þessi hækkun ekki gildi fyrr en 1. september 2025, eftir 14 mánuði.

Örorkulífeyrir til þessa hóps hefur setið eftir, á meðan verðlag og launaþróun hefur tekið sprett upp á við.
Þroskahjálp mun því áfram berjast ötullega að bættum kjörum fatlaðs fólks.