Biðtími eftir mikilvægri þjónustu fyrir fötluð börn er með öllu óásættanlegur

Mynd: Sharon McCutcheon (Pexels)
Mynd: Sharon McCutcheon (Pexels)

Undir lok árs árið 2021 hóf Umboðsmaður barna að kalla eftir gögnum um fjölda barna sem bíða eftir ýmiskonar mikilvægri og nauðsynlegri þjónustu og hefur nú birt á vef sínum. Framvegis verður hægt að nálgast uppfærðar upplýsingar um biðtíma eftir þjónustu á vef Umboðsmanns með reglulegum hætti. Þetta er mjög mikilvægt til þess að hafa yfirsýn yfir stöðu barna sem eru í þörf fyrir stuðning og þjónustu og eiga rétt á henni.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir eru biðlistar eftir þjónustu lengstir fyrir börn sem búa við fötlun eða einhvers konar skerðingar. Það er með öllu óásættanlegt í samfélagi sem leggur áherslu á velsæld barna.

Samkvæmt þessum gögnum bíða 738 börn á aldrinum 6-18 ára eftir þjónustu hjá Þroska- og hegðunarmiðstöð, þar af hafa 544 börn beðið í meira en þrjá mánuði.

Hjá Ráðgjafar og greiningarstöð bíða 226 börn á yngri barna sviði, þar af hafa 220 beðið lengur en þrjá mánuði. Á eldri barna sviði eru 100 börn á biðlista og hafa öll beðið í þrjá mánuði eða meira.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa verið óþreytandi í að benda á mikilvægi þess að hafa tiltækar tölfræðilegar upplýsingar um stöðu fatlaðs fólks, þar á meðal barna, svo leggja megi raunsætt mat á stöðu þess og bæta í þjónustu þar sem þörf er á. Við fögnum því þessu verkefni Umboðsmanns barna mjög og munum halda áfram að krefjast þess að fötluð börn fái þá þjónustu og stuðning sem þau þurfa og eiga rétt á.