Miðstöð um auðlesið mál fær styrk frá félags- og vinnumarkaðsráðherra

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnuma…
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra undirrita samninginn.

 

AUÐLESIÐ

  • Þroskahjálp fær styrk frá Guðmundi Inga, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
  • Styrkurinn er fyrir Miðstöð um auðlesið mál.
  • Vefsíðan er audlesid.is
  • Styrkurinn er 6 milljónir króna.
  • Auðlesið mál nýtist þeim sem eiga erfitt með að lesa texta. Til dæmis fólki með þroskahömlun, fólki sem er lesblint eða þeim sem eru að læra íslensku.
  • Auðlesinn texti er skrifaður á skýru og einföldu máli. Oft eru myndir notaðar til stuðnings.
     
  • Við eigum öll rétt á að fá upplýsingar á máli sem við skiljum.
  • Að þekkja réttindi sín og það sem lífið hefur upp á að bjóða hjálpar okkur að vera sjálfstæð.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Landsamtökunum Þroskahjálp fjárstyrk til þess að styrkja og efla enn frekar Miðstöð um auðlesið mál, audlesid.is.

Miðstöð um auðlesið mál var sett á laggirnar í fyrra með stuðningi ráðuneytisins. Auðlesið mál nýtist þeim sem eiga erfitt með að lesa texta og má þar nefna fólk með þroskahömlun, fólk sem er lesblint og þau sem eru að læra íslensku.
Styrkurinn nemur 6 milljónum króna.

Miðstöðin sér um að búa til efni á auðlesnu máli, og yfirfæra texta, til dæmis fræðslu- og kennsluefni frá stofnunum og fyrirtækjum, yfir á auðlesið mál. Á vefnum má einnig nálgast Orðabanka með útskýringum á ýmsum orðum á auðskildu máli. Í heimsfaraldrinum reyndist þessi vettvangur sérstaklega vel en þá birtust þar upplýsingar og annað efni tengt COVID-19 á auðlesnu máli.

Mikilvægt er að fatlað fólk fái upplýsingar um málefni líðandi stundar eins og aðrir borgarar, svo það geti tekið virkan þátt í samfélaginu. Hluta styrkfjárhæðarinnar verður varið í kynningarátak á samfélagsmiðlum og úti í samfélaginu, sem og á stöðum sem fatlað fólk sækir, og verður athygli vakin á audlesid.is.

Einnig verður athygli vakin á þeirri þjónustu sem miðstöðin veitir, svo sem fyrir stofnanir og fyrirtæki, en þau geta til dæmis fengið aðstoð við gerð upplýsinga-, fræðslu- og kennsluefnis á auðlesnu máli.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: 

„Opnun Miðstöðvar um auðlesið mál var mikið framfaraskref í þeirri vegferð að tryggja betur þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Fatlað fólk á rétt á að fá upplýsingar, fréttir og aðra fræðslu á aðgengilegan hátt svo það geti kynnt sér málefnin og tekið virkan þátt í samfélaginu. Með miðstöðinni náum við einnig að framfylgja markmiðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem kveðið er á um að tryggja fötluðu fólki aðgengi að upplýsingum til jafns við aðra.“

Þroskahjálp og Miðstöð um auðlesið mál eru þakklát Guðmundi Inga, félags- og vinnumarkaðsráðherra, fyrir samstarf og stuðning við verkefnið.  Styrkurinn eflir starf Miðstöðvarinnar og baráttuna fyrir auknu aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum á auðlesnu máli. Það er valdeflandi fyrir fatlað fólk að þekkja réttindi sín og það sem lífið hefur upp á að bjóða.