Alþjóðlegur dagur barna, 20. nóvember!

Í dag, 20. nóvember, er alþjóðlegur dagur barna! Honum hefur verið fagnað í 66 ár til að vekja athygli á réttindum og velferð barna um allan heim.

Þrátt fyrir að réttindi og velferð fatlaðra barna hafi tekið stakkaskiptum á Íslandi síðustu áratugi er enn langt í land, bæði hér heima og á alþjóðavísu. Á Íslandi má áætla að 8-10 þúsund börn séu fötluð. Tækifæri þessara barna til náms og tómstunda eru ekki viðunandi, atvinnutækifæri ungmenna af skornum skammti, enn bíða alltof margir eftir þjónustu og aðstoð í daglegu lífi og sýnileiki fatlaðra barna og ungmenna í samfélaginu er enn lítill sem viðheldur fordómum og úreltum staðalímyndum.

Í störfum sínum leggja Landssamtökin Þroskahjálp sérstaka áherslu á að vinna að hagsmunum fatlaðra barna og ungmenna, til þess að þau njóti sömu tækifæra og réttinda og önnur börn á Íslandi. Nýlega var ráðinn verkefnisstjóri til samtakanna til að sinna þeim hópi sérstaklega, meðal annars með stofnun öflugs ungmennaráðs sem er samtökunum til ráðgjafar og leiðbeiningar um hindranir sem fötluð ungmenni mæta, áhugamál þeirra, áherslur og skoðanir.

Í allri vinnu fyrir réttindum barna í samfélaginu þarf að tryggja að rödd fatlaðra barna heyrist og að þau fái sæti við borðið, eins og önnur börn!