Aðstæðubundið sjálfræði

Forsíða bókarinnar Aðstæðubundið sjálfstæði - Líf og aðstæður fólks með þroskahömlun.
Forsíða bókarinnar Aðstæðubundið sjálfstæði - Líf og aðstæður fólks með þroskahömlun.

Í lok síðasta árs kom út áhugaverð og merkileg bók sem ber nafnið Aðstæðubundið sjálfræði. Líf og aðstæður fólks með þroskahömlun. Ritstjórar bókarinnar eru þær Ástríður Stefánsdóttir, Guðrún Valgerður Stefánsdóttir og Kristín Björnsdóttir.

Bókinni er ætlað að vera kennsluefni í námi verðandi fagfólks ásamt því að veita þeim sem starfa með fötluðu fólki upplýsingar um hvernig styðja megi betur við sjálfræði fólks með þroskahömlun. Enn fremur getur bókin verið gagnleg fyrir aðstandendur fólks með þroskahömlun.

Í lýsingu bókarinnar segir meðal annars: 

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og í nýlegum lögum um þjónustu við fatlað fólk er rétturinn til sjálfræðis og sjálfstæðrar ákvarðanatöku að fullu viðurkenndur. Þrátt fyrir þennan skýlausa rétt er enn langt í land að fólk með þroskahömlun njóti fullra mannréttinda og sjálfræðis á borð við aðra. Bókin lýsir hugmyndum sem gætu stuðlað að auknu sjálfræði í lífi fólks með þroskahömlun og aukið skilning á mikilvægi þess að það fái viðeigandi aðstoð til að taka sjálft ákvarðanir um eigið líf."

Nú hefur bókin verið tilnefnd til Viðurkenningar Hagþenkis fyrir útgáfuárið 2022. Hagþenkir er félag höfunda fræðirita og kennslugagna og hefur félagið frá árinu 1987 veitt viðurkenningu fyrir samningu fræðirita, kennslugagna, aðra miðlun fræðilegs efnis eða rannsóknir. Við veitingu viðurkenningarinnar er horft til frumleika og fræðilegs eða menningarlegs gildis verkanna.

Viðurkenningin verður veitt við hátíðlega athöfn um miðjan mars og hún felst í sérstöku viðurkenningarskjali og 1.250.000 kr.

Við óskum þeim Ástríði, Guðrúnu og Kristínu, ásamt öllum þeim sem komu að gerð bókarinnar, innilega til hamingju með útgáfu hennar og tilnefninguna til viðurkenningar Hagþenkis.

Við hjá Þroskahjálp fögnum því að sjá faglega unnið kennsluefni um aðstæður og áskoranir í lífi fólks með þroskahömlun, enda alveg ljóst að ekki hefur nægilega verið fjallað um þennan hóp í rannsóknum hingað til. 

 

Hægt er að lesa meira um viðurkenningu Hagþenkis og aðra sem eru tilnefndir fyrir árið 2022 hér: https://hagthenkir.is/tilnefningar-til-vidurkenningar-hagthenkir-fyrir-utgafuarid-2022/