Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks grein 7

1. gr. Markmið.
Markmiðið með samningi þessum er að stuðla að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi, og að auka virðingu fyrir meðfæddri göfgi þess.

17. gr. Verndun friðhelgi einstaklingsins.
Sérhver fatlaður einstaklingur á rétt á því, til jafns við aðra, að líkamleg og andleg friðhelgi hans sé virt.

19. gr. Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu.
Ríkin, sem eru aðilar að samningi þessum, viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og rétt þess til að eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk megi njóta þessa réttar til fulls og stuðla að fullri þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja:

a) fötluðu fólki tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir,

b) fötluðu fólki aðgang að margs konar samfélagsaðstoð, á borð við heimaþjónustu, vist á dvalarheimili og annars konar aðstoð, m.a. nauðsynlegri þjónustu til að geta lifað í samfélaginu án aðgreiningar og til að koma í veg fyrir einangrun þess og aðskilnað frá samfélaginu,

c) að samfélagsþjónusta og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra og svari þörfum þess.

22. gr. Virðing fyrir einkalífi.
1. Enginn fatlaður einstaklingur skal, án tillits til búsetustaðar eða búsetuforms, sæta því að einkalíf hans, fjölskyldulíf, heimilislíf eða bréfaskipti eða samskipti af öðru tagi séu trufluð að geðþótta eða með ólögmætum hætti eða að vegið sé að æru hans eða orðstír með óréttmætum hætti. Fatlað fólk á rétt á því að lögin verndi það gegn fyrrnefndri truflun eða árásum.

2. Aðildarríkin skulu tryggja að farið sé með upplýsingar um persónulega hagi, heilsufar og endurhæfingu fatlaðs fólks sem trúnaðarmál á sama hátt og gildir um aðra.