Vopnuð átök, vernd flóttamanna og fatlaðs fólks

Landssamtökin Þroskahjálp sendum neðangreint bréf velferðar- og innanríkisráðuneytum, Sambandi ísl. sveitarfélaga og Rauða krossinum á íslandi

Neðangreint bréf var sent velferðar- og innanríkisráðuneytum, Sambandi ísl. sveitarfélaga og Rauða krossinum á íslandi.

 

                                                                

                                                                                                                                            24. september 2015

 Efni: Vopnuð átök, vernd flóttamanna og fatlaðs fólks.

Þegar vopnuð átök eiga sér stað hvílir sú skylda á þeim sem þátt taka að gera það sem í þeirra valdi stendur til að hlífa óbreyttum borgurum við skaðlegum afleiðingum þeirra. Þessi skylda er grundvallarþáttur í alþjóðlegum mannúðarlögum, s.s. í Genfarsamningunum frá 1949.

Þá er alþjóðlega viðurkennt að tilteknir hópar fólks eru sérstaklega berskjaldaðir fyrir skaðlegum afleiðingum vopnaðra átaka og hefur alþjóðasamfélagið staðfest það og skuldbundið sig til að taka sérstakt tillit til þess í ýmsum mannúðar- og mannréttindasamningum. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er kveðið á um þessar skyldur í 11. gr. sem ber fyrirsögnina „Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð“ og hljóðar greinin svo:

„Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar að þjóðarétti, þar með talið alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir, að meðtöldum vopnuðum átökum, neyðarástandi sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamförum.“

Reynslan sýnir að þegar fólk flýr stríðsátök er mikil hætta á að fatlað fólk sé skilið eftir eða verði útilokað frá eða geti af öðrum ástæðum ekki nálgast þá aðstoð sem veitt er flóttafólki. Þá verður það við þessar aðstæður sérstaklega berskjaldað fyrir ofbeldi og misnotkun af ýmsu tagi. Fatlað fólk, sem missir aðstandendur sína eða verður viðskila við þá á stríðstímum, verður mjög oft félagslega einangrað og án nauðsynlegs lágmarksstuðnings. Það er því ekki nokkur vafi á að fatlað fólk er enn varnarlausara, og vanræktara á stríðstímum en endranær og þá er fatlað fólk sem þarf að flýja heimili sín vegna stríðsátaka eða af öðrum ástæðum enn þá berskjaldaðara en flóttafólk almennt.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja vekja athygli hlutaðeigandi stjórnvalda og félagasamtaka á því sem að framan er rakið og hvetur til að sérstaklega verði hugað að alþjóðlegum skyldum ríkja til að taka sérstakt tillit til þarfa fatlaðs fólks fyrir stuðning og vernd við mótun og framkvæmd stefnu í málefnum flóttafólks hér á landi.

Þá hvetja samtökin íslensk stjórnvöld til að beita sér fyrir því í fjölþjóðlegu samstarfi varðandi vanda flóttafólks og viðbrögð við honum að sérstaklega verði hugað að þeirri miklu þörf fyrir vernd og sérstakan stuðning sem fatlað fólk sem býr á stríðshrjáðum svæðum hefur sem og fatlað fólk sem neyðist til að flýja heimili sín vegna stríðsátaka eða af öðrum ástæðum sem ógna lífi þess.

Virðingarfyllst,

 Bryndís  Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar