Vernd fatlaðs fólks í réttarkerfinu bréf sent Innanríkis- og velferðarráðherra

Bréf sent innanríkis-, velferðarráðherra og formanns allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.

Til

Innanríkisráðherra.

Velferðarráðherra.

Formanns allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.

Að undanförnu hefur í fjölmiðlum verið fjallað um mál erlends manns með þroskahömlun sem hefur sætt lögreglurannsókn og setið í gæsluvarðhaldi og hefur nú verið úrskurðaður í farbann.

 Með vísan til þess og annarra mála sem hafa komið upp á undanförnum vikum og mánuðum, þar sem fólk með þroskahömlun hefur átt hlut að máli sem brotaþolar, vilja Landssamtökin Þroskahjálp sérstaklega árétta skyldur stjórnvalda til tryggja að fólk með þroskahömlun og annað fatlað fólk fái réttláta og mannúðlega meðferð í réttarkerfinu. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er lögð sérstök áhersla á þessar skyldur stjórnvalda til að tryggja að fatlað fólk njóti, til jafns við aðra, þeirra réttinda sem það á að njóta í réttarkerfinu „meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess

Skyldur stjórnvalda til að taka tillit til sérstakra þarfa einstaklings vegna fötlunar hans verða enn ríkari þegar stofnanir þeirra ákveða að skerða frelsi hans, s.s. með því að úrskurða hann í gæsluvarðhald eða farbann, því að frelsisskerðingin hefur augljóslega mikil áhrif á möguleika hans til að fá þann stuðning og þá þjónustu sem hann  þarf á að halda vegna fötlunar sinnar. Við þessar aðstæður hlýtur því sú skylda að hvíla á stjórnvöldum að tryggja fötluðu fólki sem á hlut að máli allan nauðsynlegan stuðning og þjónustu sem það þarf á að halda meðan frelsi þess er skert samkvæmt ákvörðun stjórnvalda.   

 Landssamtökin Þroskahjálp vilja að gefnu tilefni minna hlutaðeigandi stjórnvöld á þessar mikilvægu skyldur sem þau bera og m.a. er mælt fyrir um í alþjóðlegum mannréttindasamningum og hvetja þau til að tryggja að þær verði uppfylltar.

 Virðingarfyllst,

 Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.

 

Árni Múli Jónasson, framkvæmdaastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.