Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar (LÞ) um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. (Þingskjal 183 — 180. mál)

Velferðarnefnd Alþingis.

 Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar (LÞ) um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. (Þingskjal 183  —  180. mál).

 Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að fá ofangreinda þingsályktunartillögu senda til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri.

 Fullgilding samningsins.

Mismunun fólks á grundvelli fötlunar er mjög mikil hvarvetna í heiminum. Ísland er engin undantekning frá því. Samningur Sameinuðu (SÞ) þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem lagður var fram til undirritunar og fullgildingar ríkja árið 2007 og sú staðreynd að þegar hafa flest ríki í heiminum fullgilt samninginn er skýr staðfesting þess að alþjóðasamfélagið hefur viðurkennt að fatlað fólk er beitt mikilli mismunun og órétti sem ríki verða að bregðast við með setningu laga og skilvirkri framkvæmd þeirra. Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki tækifæri til eðlilegs lífs til jafns við aðra.

Íslenska ríkið undirritaði samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2007 en hefur nú níu árum síðar ekki enn þá fullgilt hann. Stjórnvöld hafa þó lýst því yfir margoft og mjög skýrt að samningurinn verði fullgiltur á næstunni og að verið sé að gera breytingar á íslenskum lögum, reglum og stjórnsýsluframkvæmd til að tryggja að kröfur sem samningurinn gerir séu og verði uppfylltar.

Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum, er mælt fyrir um að við framkvæmd laganna skuli „tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.“

Þá hefur verið nefnd að störfum sem hefur það hlutverk að gera tillögur varðandi endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. LÞ á fulltrúa í nefndinni og hafa samtökin lagt þar mjög mikla áherslu á að lög um málefni fatlaðs fólks verði endurskoðuð þannig að tryggt verði að þau uppfylli vel allar kröfur sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks gerir varðandi löggjöf og stjórnsýsluframkvæmd..

Landssamtökin Þroskahjálp styðja heilshugar að Alþingi leggi fyrir ríkisstjórnina að fullgilda fyrir Íslands hönd samning Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eins og mælt er fyrir um í þingsályktunartillögunni.

 

Lögfesting samningsins.

Landssamtökin Þroskahjálp telja að öll rök standi til þess að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur eins og samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013.

Í athugasemdum með 1. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 19/2013 segir m.a.:

„Með því að lögfesta samninginn um réttindi barnsins er mannréttindum barna veitt aukin vernd og réttaröryggið eykst. Barn eða forsjáraðili þess getur þá borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir dómi eða stjórnvöldum. Lögfesting mun vekja jafnt almenning og þá sem fjalla um málefni barna fyrir dómstólum, í stjórnsýslu og við undirbúning að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi barna og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki. Lögfesting samningsins um réttindi barnsins mun og auka, á alþjóðavettvangi, traust á virðingu íslenska ríkisins fyrir mannréttindum barna.“[1]

LÞ telja að ofangreind rök eigi öll einnig fyllilega við um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Með vísan til þessara raka og annarra raka og  sjónarmiða sem er að finna í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 19/2013 varðandi nauðsyn þess að lögfesta samning um réttindi barna skora Landssmtökin Þroskahjálp á Alþingi og ríkisstjórn að gera það sem gera þarf til að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fái sem fyrst lagagildi á Íslandi.

 Fullgilding valfrjálsrar bókunar við samninginn.[2]

 

Ísland undirritaði valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um leið og það undirritaði samninginn í mars 2007.

Valfrjálsa bókunin mælir fyrir um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa sem telja að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber samkvæmt samningnum til eftirlitnefndar með samningnum. Eftirlitnefndin getur óskað upplýsinga frá ríkjum og beint tilmælum til þeirra.

Með því að fullgilda valfrjálsu bókunina verður réttaröryggi fatlaðs fólks meira og mannréttindi þess betur varin.

 Nokkrar ábendingar Landssamtakanna Þroskhjálpar varðandi einstakar greinar samningsins.

Hér á eftir fara nokkur mikilvæg atriði og athugasemdir sem LÞ vill koma á framfæri við velferðarnefnd og varða íslensk lög, reglur og /eða stjórnsýsluframkvæmd m.t.t. ákvæða samningsins. Óþarft er að taka fram að hér alls ekki um tæmandi talningu slíkra atriða að ræða.

 5.      gr.         Jafnrétti og bann við mismunun.

LÞ vísa hér til umsagnar sinnar um frumvarp til laga um breytingu á ákvæðum ýmissa laga um bann við mismunun (Þingskjal 144 – 144. mál) sem er til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Í þeirri umsögn samtakanna segir m.a.:

„Verði það frumvarp sem hér er til umfjöllunar samþykkt og gert að lögum verður stigið stórt skref til að tryggja betur og skýrar lagalega vernd fatlaðs fólks fyrir mismunun á ýmsum sviðum sem reynslan sýnir að mikil þörf er á.

LÞ telja mikilvægt og eðlilegt, í ljósi, sögunnar, reynslunnar og stöðunnar, að fötlun verði sérstaklega tilgreind í þeim lagaákvæðum sem með frumvarpinu er lagt er til að verði breytt af sömu ástæðum og með sömu rökum og tiltekin atriði eru nú þegar tilgreind þar til að veita þeim sem þau eiga við skýra lagalega vernd gegn mismunun.

Þá vilja LÞ nota þetta tækifæri til að vekja athygli allsherjar- og menntamálanefndar á að nákvæmlega sömu rök og sjónamið og fram koma í greinargerð með frumvarpinu og rakin eru hér að framan eiga við um jafnræðisreglu íslensku stjórnarskrárinnar og þörfina fyrir að fötlun verði sérstaklega tilgreind í henni.“[3]

Í sambandi við þessa grein samningsins um jafnrétti og bann við mismunun vilja LÞ sérstaklega vekja athygli á álitum eftirlitsnefndar með samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks varðandi lög og framkvæmd í Austurríki og á Spáni. Vísað er til þessara álita í bréfi sem formenn Landssamtakanna Þroskahjálpar og Félags áhugafólks um Downs-heilkenni sendu heilbrigðisráðherra 12. febrúar sl. Velferðarnefnd fékk afrit af bréfinu (Efni: Lög, reglur og framkvæmd varðandi fósturskimanir og fóstureyðingar).

Í bréfinu segir m.a.:

„Eftirlitsnefnd með framkvæmd þessa samnings fylgist reglulega með framkvæmd aðildarríkja á ákvæðum samningsins og skilar skýrslum um það. Í skýrslu  eftirlitsnefndarinnar (2013) varðandi lög, reglur og framkvæmd í Austurríki m.t.t. skuldbindinga sem leiða af samningnum er m.a fjallað um löggjöfina þar varðandi fóstureyðingar. Í skýrslu eftirlitsnefndarinnar segir eftirfarandi:

14.        While the Committee recognises women’s right to reproductive autonomy, the Committee notes that under Austrian law it is legal for a foetus to be aborted up to the onset of birth if serious damage to the health of the foetus can be expected. The Committee is concerned that there appears to be a link between this provision and the fact that according to OECD statistics, births of children with Down’s syndrome in Austria fell by 60% between 1995 and 2006. The Committee notes that discussions on this matter are underway.

 15.        The Committee recommends that the State party abolish any distinction in the period allowed under law within which a pregnancy can be terminated based solely on disability.[4]

Í skýrslu eftirlitsnefndarinnar um framkvæmd samningsins á Spáni (2011) segir varðandi lög um fóstureyðingar:

 17.The Committee takes note of Act 2/2010 of 3 March 2010 on sexual and reproductive health, which decriminalizes voluntary termination of pregnancy, allows pregnancy to be terminated up to 14 weeks and includes two specific cases in which the time limits for abortion are extended if the foetus has a disability: until 22 weeks of gestation, provided there is “a risk of serious anomalies in the foetus”, and beyond week 22 when, inter alia, “an extremely serious and incurable illness is detected in the foetus”. The Committee also notes the explanations provided by the State party for maintaining this distinction.

 

 18. The Committee recommends that the State party abolish the distinction made in Act 2/2010 in the period allowed under law within which a pregnancy can be terminated based solely on disability“.[5]

 Umrædd álit eftirlitnefndarinnar varða 5. gr. samningsins um jafnrétti og bann við mismunun. LÞ telja ljóst að óhjákvæmilegt og brýnt er að greina og endurskoða lög og framkvæmd varðandi fósturskimanir og fóstureyðingar hér á landi af ýmsum ástæðum sem tilgreindar eru í umræddu bréfi til heilbrigðisráðherrra frá 12. febrúar sl. og meðal annars m.t.t. þeirra  álita eftirlitsnefndar með samningnum sem vitnað er til hér að ofan.

 Um mismunun hvað varðar vernd fatlaðra kvenna gegn ofbeldi og aðgang fatlaðs fólks að réttarkerfinu vísast til umfjöllunar hér á eftir um 6. og 13. gr. samningsins.

  6.      gr.         Fatlaðar konur.

Viðurkennt er að hvarvetna í heiminum eru fatlaðar konur beittar mismunun, misnotkun og ofbeldi af ýmsu tagi. Þess vegna þótti nauðsynlegt að hafa sérstaka grein í samningnum til að draga það sérstaklega fram og árétta skyldu ríkja til að viðurkenna það og veita þeim fullnægjandi vernd, með viðeigandi ráðstöfunum.

Ýmis mál hafa komið upp í íslensku samfélagi fyrr og síðar sem sýna og sanna svo ekki verður um villst að það er afar brýnt viðfangsefni hér á landi að bæta vernd fatlaðra kvenna gegn mismunun og ofbeldi með vönduðum lögum og markvissri stjórnsýsluframkvæmd  

Í þessu sambandi vísast m.a. til nýlegrar umfjöllunar fjölmiðla um kynferðilsegt ofbeldi gegn konum með þroskahömlun og ákvarðana ákæruvalds og niðurstaðna dómstóla í málum þar sem konur með þroskahömlun hafa kært slík brot. Ríkið verður að gera allt sem í þess valdi stendur, m.a. á sviði löggjafar til að tryggja fötluðum konum vernd gegn ofbeldi til jafns við aðra.

 9.      gr.         Aðgengi.

Hér er um að ræða afar mikilvæga grein og ræður framkvæmd ríkja á því sem hún tekur til mjög miklu um lífsgæði fatlaðs fólks og tækifæri þess til sjálfstæðs og eðlilegs lífs.

LÞ vísa hér m.a. til umsagnar sinnar um drög að breytingum á byggingarreglugerð sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kynnt.[6] Í þeirri umsögn eru gerðar alvarlegar athugsemdir við þær breytingar sem þar eru kynntar m.t.t. þeirra áhrifa sem þær eru til þess fallnar að hafa fyrir aðgengi fatlaðs fólks. Í umsögninni segir m.a. um þessa grein samningsins:

„Sú mikla áhersla sem þessi mannréttindasamningur leggur á rétt fatlaðs fólks til aðgengis til jafns við aðra birtist ekki aðeins í ofangreindum og ýmsum öðrum ákvæðum hans heldur einnig í því  að í annarri  „almennu athugasemdinni“ (e. General comment No. 2 (2014)) sem eftirlitsnefnd með framkvæmd samningsins hefur samþykkt er fjallað um aðgengismál, þ.e. túlkun og framkvæmd 9. greinar samningsins og tengsl þeirra ákvæða við ýmis mannréttindi fatlaðs fólks sem eru viðurkennd og varin í öðrum ákvæðum samningsins.

Í athugasemdum eftirlitsnefndarinnar er lögð sérstök áhersla á að aðengi fatlaðs fólks til jafns við aðra snýst um jafnræði og bann við mismunun og að aðgengi til jafns við aðra er forsenda þess að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu og eðlilegu lífi og tekið þátt í samfélaginu og notið margvíslegra annarra mannréttinda. Nefndin segir m.a. í athugasemdum sínum:

  • Accessibility is a precondition for persons with disabilities to live independently and participate fully and equally in society. (1. efnisatriði).
  • The Convention on the Rights of Persons with Disabilities includes accessibility as one of its key underlying principles — a vital precondition for the effective and equal enjoyment of civil, political, economic, social and cultural rights by persons with disabilities. (4. efnisatriði.).
  • The Committee on the Rights of Persons with Disabilities has considered accessibility as one of the key issues in each of the 10 interactive dialogues it has held with States parties during the consideration of their initial reports, prior to the drafting of the present general comment. (10. efnisatriði).
  • Since accessibility is a precondition for persons with disabilities to live independently, as provided for in article 19 of the Convention, and to participate fully and equally in society, denial of access to the physical environment, transportation, information and communication technologies, and facilities and services open to the public should be viewed in the context of discrimination. Taking “all appropriate measures, including legislation, to modify or abolish existing laws, regulations, customs and practices that constitute discrimination against persons with disabilities” (art. 4, para. 1 (b)) constitutes the main general obligation for all States parties. (23. efnisatriði).
  • In accordance with the Convention, States parties are not allowed to use austerity measures as an excuse to avoid ensuring gradual accessibility for persons with disabilities. The obligation to implement accessibility is unconditional, i.e. the entity obliged to provide accessibility may not excuse the omission to do so by referring to the burden of providing access for persons with disabilities. (25. efnisatriði).
  • Legislation should incorporate and be based on the principle of universal design, as required by the Convention (art. 4, para. 1 (f)). (28. efnisatriði).
  • The duty of States parties to ensure access to the physical environment, transportation, information and communication, and services open to the public for persons with disabilities should be seen from the perspective of equality and non-discrimination. Denial of access to the physical environment, transportation, information and communication, and services open to the public constitutes an act of disability-based discrimination that is prohibited by article 5 of the Convention. Ensuring accessibility pro futuro should be viewed in the context of implementing the general obligation to develop universally designed goods, services, equipment and facilities (art. 4, para. 1 (f)). (34. efnisatriði).

...

Skýringar og túlkanir eftirlitsnefndarinnar hafa mjög mikið vægi hvað varðar skyldur ríkja samkvæmt samningnum til að setja lög og reglur og haga stjórnsýsluframkvæmd til samræmis við ákvæði samningsins og markmiða með honum, enda metur þessi eftirlitsnefnd reglulega framkvæmd einstakra ríkja á samningnum og skilar skýrslum um það. Þegar íslensk stjórnvöld hafa fullgilt samninginn munu þau þurfa að skila eftirlitsnefndinni skýrslum um hvernig þau hafa með lögum, reglugerðum og stjórnsýsluframkvæmd uppfyllt þær kröfur sem samningurinn gerir, m.a. á sviði aðgengismála.“

 11.  gr.         Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð.

LÞ vilja í þessu samhengi vekja athygli á skyldum stjórnvalda samkvæmt samningnum til að huga sérstaklega að þörfum fatlaðs fólks fyrir aðstoð þegar vopnuð átök eiga sér stað og fólk neyðist til að flýja heimili sín og leita hælis í öðrum löndum. Samtökin vísa þessu til frekari skýringar til bréfs sem þau sendu velferðar- og innanríkisráðuneytum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Rauða krossinum á Íslandi 24. desember sl., varðandi vopnuð átök, vernd flóttamanna og fatlaðs fólks.[7]

 13.  gr.         Aðgangur að réttarkerfinu.

Í 13. gr. samningsins segir:

„Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra, meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess og taka tilhlýðilegt tillit til aldurs viðkomandi, í því skyni að gera því kleift að gegna hlutverki sínu með virkum hætti sem beinir og óbeinir þátttakendur, þar með talið sem vitni, í öllum málarekstri, einnig á rannsóknarstigi og öðrum undirbúningsstigum.“(undirstr. LÞ).

Í ofangreindu ákvæði felst viðurkenning á því að til að tryggja fötluðu fólki aðgang að réttarkerfinu og réttarvernd til jafns við aðra verða ríki að taka tilliti sérstakra þarfa sem fatalður einstaklingur kann að hafa vegna förtlunarinnar, t.a.m. þroskahömlunar eða geðfötlunar.

Það er grundvallarskylda ríkisins að verja borgarana gegn ofbeldi með tiltækum ráðum m.a. á sviði lagasetningar. Mismunun hvað varðar vernd gegn ofbeldi er mjög alvarlegt mannréttindabrot.

Til að uppfylla kröfur sem leiða ákvæðum þessarar greinar samningsins þarf ríkið að huga að því hvort þörf sé fyrir sérstök lagaákvæða til að tryggja að réttarkerfið (lögregla, ákæruvald, dómsvald) veiti fötluðu fólki vernd gegn ofbeldi til jafns við aðra „meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess“. Lyktir lögreglu- og dómsmála sem m.a. er vísað til í umfjöllun um 6. gr. samningsins hér að framan benda til þess. Einnig vísast í þessu sambandi til umfjöllunar hér á eftir um 16. gr. samningsins.

 16.  gr.         Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum.          

LÞ vísa til þess sem að framan segir varðandi 6. gr. (Fatlaðar konur) og 13. gr. (Aðgangur að réttarkerfinu) um skyldur ríkja til að verja fatlað fólk fyrir misnotkun og ofbeldi af ýmsu tagi sem og fyrir mismunun hvað varðar aðgang að réttarkerfinu (lögregla, ákæra, dómsvald) og réttarvernd.

Þá vilja LÞ í þessu sambandi einnig benda á eftirfarandi.

Þó að ein réttindi fólks séu ekki öðrum réttindum æðri er vernd sumra réttinda forsenda þess að fólk fái notið ýmissa annarra réttinda. Mannréttindi eru samofin. Ein réttindi styðja önnur og saman mynda þau eina heild sem er gundvöllur réttarríkis sem á að tryggja réttindi alls fólks, án mismununar.

Sá sem er beittur ofbeldi eða er hótað ofbeldi er mjög oft þar með einnig sviptur tjáningarfrelsi sínu og mörgum öðrum mannréttindum.

Það er því ljóst að grundvallarskylda stjórnvalda í réttarríki sem byggist á mannréttindum er að verja fólk fyrir ofbeldi. Eðli máls samkvæmt er sérstök nauðsyn að verja þá sem veikar standa fyrir ofbeldi af hálfu þeirra sem sterkari stöðu hafa, s.s. vegna líkamlegs styrks, félagslegrar stöðu eða valds í krafti laga eða aðstæðna.

Til að standa undir þessari grundvallarskyldu sinni þurfa stjórnvöld að tryggja að lög, reglur, stjórnsýslan, löggæslan og annað opinbert eftirlit, ákæruvald og dómskerfi virki þannig að þeir sem veikari stöðu hafa njóti verndar gegn ofbeldi, til jafns við aðra þjóðfélagsþegna.

Í þessu samhengi þarf að sjá og ræða ofbeldi gegn fötluðu fólki. Og í þessu samhengi þarf að greina lög og reglur, stjórnsýsluna og réttarkerfið til að tryggja að það veiti fötluðu fólki vernd gegn ofbeldi, til jafns við aðra.

 18.  gr.  Umferðarfrelsi og ríkisfang.

Greinin hefst á þessum orðum:

„Aðildarríkin skulu viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til umferðafrelsis og frelsis til að velja sér búsetu og rétt til ríkisfangs, ... .“ (undirstr. LÞ).

Samkvæmt íslenskum lögum eru sveitarfélög og eftir atvikum sérstök þjónustusvæði ábyrg fyrir þjónustu við fatlað fólk. Fatlað fólk sem er háð þjónustu um ýmsar athafnir daglegs lífs getur ekki flutt í annað sveitarfélag eða á annað þjónustusvæði nema tryggt sé að það fái nauðsynlega þjónustu þar. Í mörgum sveitarfélögum og þjónustusvæðum er löng bið og langir biðlistar eftir þjónustu sem fatlað fólk á lagalegan rétt á og er háð hvað varðar athafnir daglegs lífs. Þá hafa stjórnvöld ekki sett reglur um hámarksbiðtíma eftir þjónustu þó að Ríkisendurskoðun hafi sagt að þau verði að gera það.[8]

Af ofagreindu leiðir að fatlað fólk sem vill flytjast milli sveitarfélga eða þjónustusvæða er í raun oft svipt frelsi til að velja sér búsetu eins og það á rétt til samkvæmt ofangreindu ákvæði samningsins sem og öðrum mannréttindasamnignum sem íslenska ríkið hefur undirgengist.

Íslenska ríkið verður að tryggja að lög og reglur varðandi þjónustu við fatlað fólk og eftirlit með framkvæmd hennar sé þannig að fatlað fólk njóti til jafns við aðra þeirra mannréttinda að hafa frelsi til að ráða búsetu sinni.

 19.  gr.  Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu.

Ákvæði þessarar greinar eru afar mikilvæg og til að gefa þeim innihald í verki þannig að þau bæti lífsgæði og tækifæri fólks af holdi og blóði til sjálfstæðs og eðlilegs lífs þurfa stjórnvöld að huga að mörgu og vanda mjög til setningar laga og reglna og stjórnsýsluframkvæmdar.

Í þessu sambandi vilja LÞ hér leggja sérstaka áherslu á rétt og tækifæri fatlaðs fólks til að velja sér búsetu og skyldu stjórnvalda til að tryggja því þann rétt. Þessi réttur og skylda ríkisins kemur skýrt fram í upphafsákvæðum 19 gr. samningsins sem hljóða svo.

„Aðildarríkin viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og með sömu valkosti og aðrir og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess greiða fyrir þessum rétti fatlaðs fólks og til fullrar þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja:

a)      að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir, ... .“ (Undirstr. LÞ).

Þá vísa LÞ til þess sem rakið er í umsögn samtakanna til velferðarnefndar frá 29. janúar sl. um frumvörp til laga varðandi húsnæðismál.[9]

Í sumum sveitarfélögum eru mjög langir biðlistar eftir viðeigandi húsnæði fyrir fatlað fólk og er alls ekki óalgengt að fatlað fólk hafi verið á biðlista eftir húsnæði í mjög mörg ár án þess að fá úrlausn sinna mála sem það á þó lagalegan rétt á. Í þessu samhengi skal því áréttað mikilvægi þess að stjórnvöld setji og fylgi eftir reglum um hámarksbiðtíma fatlaðs fólks eftir þjónustu.

 28.  gr.  Viðunandi lífskjör og félagsleg vernd.

LÞ vísa hér til bókunar samtakanna við tillögur  nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar.[10]

 29.  gr.  Þátttakaí stjórnmálum og opinberu lífi.

Í greininni er kveðið á um skyldur rikja til að tryggja fötluðu fólki tækifæri til að njóta stjórnmálalegra réttinda til jafns við aðra. Í lið a) iii. í greininni er mælt fyrir um skyldu ríkja til að tryggja „að fatlað fólk geti tjáð frjálst vilja sinn sem kjósendur og að heimilað sé í þessu skyni, þar sem nauðsyn krefur og að ósk þess, að það njóti aðstoðar einstaklinga að eigin vali við að greiða atkvæði.“ (undirstr. LÞ).

LÞ hafa hvatt íslensk stjórnvöld hafa til að gera nauðsynlegar breytingar á lögum og stjórnsýsluframkvæmd til að tryggja að fólk með þroskahömlun njóti örugglega þessa réttar til jafns við aðra eins og því ber samkvæmt samningnum og stjórnvöldum ber að tryggja og er sú hvatning ítrekuð hér.

 

Lokaorð.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýsa Landssamtökin Þroskahjálp eindregnum stuðningi við þá þingsályktunartillögu sem hér er til umfjöllunar um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

LÞ skora einnig á Alþingi og ríkisstjórn að fullgilda um leið valfrjálsa bókun við samninginn.

Þá skora samtökin á ríkisstjórn og Alþingi að hefja nú þegar markvissan undirbúning að því að lögfesta samninginn þannig að hann megi sem fyrst öðlast lagagildi hér á landi og bæta þannig réttaröryggi fatlaðs fólks og veita mannréttindum þess aukna vernd.

 

23. mars 2016,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna þroskahjálpar.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna þroskahjálpar.

 


[1] Frumvarp sem varð að lögum nr. 19/2013, um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, má nálgast á þessum link:

http://www.althingi.is/altext/141/s/0155.html

[2] Valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks má nálgast á þessum link:

https://www.velferdarraduneyti.is/media/acrobat-skjol/10062009SamningurUmRettindiFatladsFolks_ValfrjalsBokun.pdf

[3] Jafnræðisreglan er í 65. gr. stjórnarskrárinnar og hljóðar svo:

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti

[4] UN Doc CRPD/C/AUT/CO/1, 13. september 2013.

[5] UN Doc CRPD/C/ESP/CO/1, 19. október 2011.

[6] Umsögn LÞ um drög að breytingum á byggingarreglugerð má nálgast hér:

http://www.throskahjalp.is/is/alit-og-umsagnir/efni-breytingar-a-byggingarreglugerd

[7] Bréfið má nálgast á eftirfarandi link:

http://www.throskahjalp.is/is/alit-og-umsagnir/vopnudatokverndflottamannaogfatladsfolks-1

 

[8] Sjá bls. 7 og 19-20 í skýrslu Ríkisendurskoðunar (ágúst 2010) um þjónustu við fatlaða. Skýrsluna má nálgast á eftirfarandi link:

http://www.rikisendurskodun.is/fileadmin/media/skyrslur/thjonusta_vid_fatlada.pdf

[9] Umsögn LÞ má nálgast á eftirfarandi link:

http://www.throskahjalp.is/is/alit-og-umsagnir/umsognlandssamtakannathroskahjalparlthumfrumvorptillagavardandihusnaedismalalmennaribudirhusnaedisbaeturhusaleiguhusnaedissamvinnufelog-

[10] Bókun LÞ má nálgast á eftirfarandi link:

http://www.throskahjalp.is/static/files/PDF-SKJOL/endursk-almtr-bokun-landssamtakanna-throskahjalpar.pdf

 

Hér má lesa þingsályktunartillöguna sem umsögning varðar