Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um tillögu til þingsályktunar um undirritun og fullgildingu þriðju valfrjálsu bókunarinnar við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 73. mál.

 Landssamtökin Þroskahjálp styðja þingsályktunartillöguna og hvetja eindregið til þess að þriðja valfrjálsa bókunin við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna verði undirrituð og fullgilt af Íslands hálfu. Fullgilding bókunarinnar yrði til þess að styrkja stöðu Barnasáttmálans og tryggja börnum á Íslandi betur þau réttindi og þá vernd sem sáttmálinn mælir fyrir um.

Samtökin vilja sérstaklega benda á mikilvægi þess að fötluð börn fái notið allra þeirra mannréttinda sem sáttmálinn mælir fyrir um til jafns við önnur börn. Allar rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að fötluð börn eru sá hópur barna sem berskjölduðust eru fyrir mannréttindabrotum af ýmsu tagi. Á stjórnvöldum hvílir því skýr og rík skylda til að huga sérstaklega að aðstæðum þeirra og þörfum og veita þeim þá vernd sem nauðsynleg er til að þau fái notið allra mannréttinda til jafns við önnur börn. Þesssi staðreynd og þessar skyldur stjórnvalda gagnvart fötluðum börnum eru skýrlega viðurkenndar í barnasáttmála SÞ. Í 23. gr. hans er fötluðum börnum veitt sérstök vernd umfram þá sem þau og önnur börn njóta samkvæmt öðrum greinum sáttmálans.[2]

Með vísan til framangreinds hvetja Landssamtökin Þroskahjálp eindregið til að þriðja valfrjálsa bókunin við barnsaáttmálann verði fullgilt til  að mannréttidni fatlaðra barna sem og allra barna á Íslandi njóti þeirrar auknu verndar sem fullgildingin veitir.

Landssamtökin þroskahjálp óska eftir að fá að koma á fund utanríkismálanefndar til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónamiðum sínum og áherslum varðandi þingsályktunartillöguna.

 

Virðingarfyllst,

 

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 Anna Lára Steindal, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp

Þingsályktunartillöguna sem umsögnin á við má skoða hér

 



[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn. 

[2]23. gr. barnasáttmála SÞ hljóðar svo:

  1. Aðildarríki viðurkenna að andlega eða líkamlega fatlað barn skuli njóta fulls og sómasamlegs lífs, við aðstæður sem tryggja virðingu þess og stuðla að sjálfsbjörg þess og virkri þátttöku í samfélaginu.
 2. Aðildarríki viðurkenna rétt fatlaðs barns til sérstakrar umönnunar, og skulu þau stuðla að því og sjá um að barni sem á rétt á því, svo og þeim er hafa á hendi umönnun þess, verði eftir því sem föng eru á veitt sú aðstoð sem sótt er um og hentar barninu og aðstæðum foreldra eða annarra sem annast það.
 3. Með tilliti til hinna sérstöku þarfa fatlaðs barns skal aðstoð samkvæmt 2. tölul. þessarar greinar veitt ókeypis þegar unnt er, með hliðsjón af efnahag foreldra eða annarra sem hafa á hendi umönnun þess, og skal hún miðuð við að tryggt sé að fatlaða barnið hafi í raun aðgang að og njóti menntunar, þjálfunar, heilbrigðisþjónustu, endurhæfingar, starfsundirbúnings og möguleika til tómstundaiðju, þannig að stuðlað sé að sem allra mestri félagslegri aðlögun og þroska þess, þar á meðal í menningarlegum og andlegum efnum.
 4. Aðildarríki skulu í anda alþjóðlegrar samvinnu stuðla að því að skipst sé á viðeigandi upplýsingum um fyrirbyggjandi heilsugæslu og læknisfræðilega, sálfræðilega og starfræna meðferð fatlaðra barna, þar á meðal með dreifingu á og aðgangi að upplýsingum um endurhæfingaraðferðir, menntun og atvinnuhjálp, er miði að því að gera aðildarríkjum kleift að bæta getu sína og færni og auka reynslu sína að þessu leyti. Hvað þetta snertir skal tekið sérstakt tillit til þarfa þróunarlanda.