Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna (Þingskjal 14 — 14. mál).

 

 

 

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið sent til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við allsherjar- og menntamálanefnd.

 Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum samningsins, eins og mælt er sérstaklega fyrir um í 4. gr. hans, sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“. Þar segir m.a.:  

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. 
    Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til: 
          a)      að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að þau réttindi sem eru viðurkennd með samningi þessum verði að veruleika, 
          b)      að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, ...
(Undirstr. Þroskahj.)

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: „Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur.“       

Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks nær til allra sviða samfélagsins og hefur það meginmarkmið að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og jöfn tækifæri á við aðra á öllum sviðum og að verja það fyrir mismunun af öllu tagi. Sérstaklega er kveðið á um þessar skyldur ríkja til að tryggja fötluðu fólki jafnrétti í 5. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Jafnrétti og bann við mismunun“ og hljóðar svo:

     1.      Aðildarríkin viðurkenna að allir menn eru jafnir fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum hag lögum samkvæmt án nokkurrar mismununar. 
     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og skilvirka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er. 
     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að stuðla að jöfnuði og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 
     4.      Eigi ber að líta á sértækar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram jafnrétti til handa fötluðu fólki í reynd, sem mismunun samkvæmt skilmálum samnings þessa.
(Undirstr. og feitletr. Þroskahj.)

2. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Skilgreiningar“ og þar er „viðeigandi aðlögun“ skilgreind svo:

    „viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og mannfrelsi,“ 

Fatlaðar konur njóta allrar þeirra mannréttinda og verndar sem mælt er fyrir um í samningnum og á öllum þeim sviðum sem hann nær til. Í samningnum er einnig kveðið á  um skyldur ríkja til að líta sérstaklega til aðstæðna og þarfa fatlaðra kvenna og til að gera nauðsynlegar ráðstafanir, þ.m.t. á sviði lagasetningar, til að tryggja þeim jafnrétti og fullnægjandi vernd fyrir mismunun og ofbeldi. Í formálsorðum samningsins segir:

 Ríkin, sem eiga aðild að samningi þessum, ... 

     p)      sem hafa áhyggjur af erfiðum aðstæðum fatlaðs fólks sem sætir margþættri eða síaukinni mismunun vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúarbragða, stjórnmála­skoðana eða annarra skoðana, þjóðlegs, þjóðernislegs eða félagslegs uppruna eða frum­byggjauppruna, eigna, ætternis, aldurs eða annarrar stöðu, ...

     q)      sem viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru oft í meiri hættu, innan heimilis sem utan, að verða þolendur ofbeldis, áverka eða misþyrminga, vanrækslu eða hirðuleysis, illrar meðferðar eða misneytingar, ...

   s)      sem leggja áherslu á nauðsyn þess að ávallt sé tekið mið af kynjasjónarmiðum í þeirri viðleitni að stuðla að því að fatlað fólk njóti fullra mannréttinda og mannfrelsis, ...

6. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Fatlaðar konur“ og hljóðar svo:

     1.      Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru þolendur margþættrar mismun­unar og skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannrétt­inda og mannfrelsis til jafns við aðra. 
     2.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja þróun, framgang og valdeflingu kvenna til fulls í því skyni að tryggt sé að þær geti nýtt sér og notið þeirra mannréttinda og mannfrelsis sem sett eru fram í samningi þessum. 

Í 16. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum“segir:

 1.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, einnig með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna. (Undirstr. þroskahj.)

 

Eins og fyrr sagði fullgilti íslenska ríkið samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum hans hér á landi, m.a. og ekki síst með því að „að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði í því skyni. Af því og öðru sem hér að framan er rakið  hvílir sú mikilvæga, skýra og augljósa skylda á íslenska ríkinu, að mati Landssamtakanna Þroskahjálpar, þegar það semur og setur lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, að fara sérstaklega yfir hvaða ákvæði þarf að hafa í lögunum til að að tryggja fötluðum konum jafnrétti í reynd og fullnægjandi og virka vernd gegn mismunun, eins og mælt er fyrir um að ríkinu sé skylt að gera í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Í þessu sambandi vilja samtökin sérstaklega vekja athygli á  skyldu ríkisins til að tryggja með lögum rétt fatlaðra kvenna til „viðeigandi aðlögunar“, sbr. 3. mgr. 5. gr. samningsins. Virkur réttur til viðeigandi aðlögunar er algjör forsenda þess að fatlað fólk fái í raun raunhæfa möguleika til að njóta jafnréttis og jafnra tækifæra á við aðra.

Í 2. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Skilgreiningar“ er viðeigandi aðlögun skilgreind svo:

    „viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og mannfrelsi, 

Eins og fyrr var vísað til segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar: „Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur.“ Þrátt fyrir þá skýru yfirlýsingu og þrátt fyrir skýra skyldu ríkisins til þess samkvæmt samningnumtelja Landssamtökin Þroskahjálp mikla ástæðu til að ætla að við samningu þessa lagafrumvarps hafi verulega skort á að litið hafi verið til lagalegra réttinda og lagalegrar verndar sem fatlaðar konur eiga að njóta samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og skyldna íslenska ríkisins til að tryggja það með því að setja viðeigandi og fullnægjandi ákvæði í lög, þ.m.t. hvað varðar „viðeigandi aðlögun“ og „sértækar ráðstafanir“. Án þeirra ákvæða í lögunum telja samtökin alls ekki nægilega tryggt að fatlaðar konur njóti sömu lagalegu verndar og aðrar konur gegn mismunun á þeim sviðum sem lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna taka til.

Samtökin skora því á allsherjar- og menntamálanefnd og Alþingi að láta fara sérstaklega yfir frumvarpið m.t.t. þess að tryggja að það uppfylli kröfur sem leiða af samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Landssamtökin þroskahjálp lýsa miklum vilja til að koma að því verkefni og vísa í því sambandi til  3. mg. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks þar sem segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. 

Þá vilja Landssamtökin Þroskahjálp benda og minna á að Í bráðbirgðaákvæði í  lögum nr. 85/2018, um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, sem öðluðust gildi 1. september 2018, segir:

Ráðherra skal innan árs frá gildistöku laga þessara leggja fram á Alþingi frumvarp þar sem kveðið verði á um að lögunum verði breytt þannig að þau gildi ekki eingöngu um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna heldur einnig óháð trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar, sbr. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Með þessu lagaákvæði lagði löggjafinn fyrir forsætisráðherra að leggja fram, eigi síðar en 1. september 2019, frumvarp að heildstæðum lögum um bann við mismunun á öllum sviðum, þ.m.t. á grundvelli fötlunar. Nú er liðið meira en ár frá því að leggja átti þetta frumvarp fram samkvæmt fyrrnefndu lagaákvæði. Það hefur þó ekki verið gert og er frumvarpið ekki heldur á þingmálaskrá forsætisráðherra. Landssamtökin Þroskahjálp hvetja því allsherjar- og menntamálanenfd eindregið til að kalla eftir upplýsingum frá forsætisráðuneytinu um hvar vinna við þetta mikilvæga frumvarp stendur, hvernig samráði við gerð þess sé háttað og hvenær forsætisráðherra hyggist leggja það fram.

Þá er í þessu sambandi óhjákvæmilegt að minna allsherjar- og menntamálanefnd og Alþingi á þingsályktun um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust 3. júní  2019. Ályktunin hljóðar svo:

 

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Frumvarp, sem feli í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum, verði lagt fram á Alþingi með það að markmiði að samningurinn verði lögfestur eigi síðar en 13. desember 2020.

 

Þrátt fyrir að Alþingi hafi samþykkt þessa ályktun um lögfestingu samningsins mótatkvæðlalaust hefur frumvarp um það ekki enn verið lagt fram og það frumvarp er ekki að finna á þingmálaskrá ráðherranna. Engar haldbærar skýringar á því  hafa komið frá hlutaðeigandi ráðherum, sbr. svör forsætisráðherra við fyrirspurn þar að lútandi sem borin var upp á Alþingi 19. október sl.[2] Með vísan til þess skora Landssamtökin Þroskahjálp á allsherjar- og menntamálanefnd að kalla eftir upplýsingum frá dómsmálaráðherra hvar vinna við þetta frumvarp stendur og hvenær ráðherra hyggist leggja það fram.

  

Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá fund með allsherjar- og menntamálanefnd til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum, áherslum og tillögum.

 

Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér:

 

 



[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og fleiri fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. 20 félög eiga aðild að samtökunum, með um 6 þúsund félagsmönnum

 

[2] https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/bferill/?ltg=151&mnr=62