Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um velsældarvísi fyrir heilbrigðan húsnæðismarkað, 276. mál.

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um velsældarvísi fyrir heilbrigðan húsnæðismarkað, 276. mál.

     24. mars 2023

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið þingsályktunartillöguna til umsagnar og lýsa eindregnum stuðningi við hana.

Í skýrslu starfshóps um endurskoðun laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem skilað var til félags og vinnumarkaðsráðherra í apríl 2022, er að finna upplýsingar um fullkomlega óásættanlega stöðu í húsnæðismálum fatlaðs fólks. Í skýrslunni eru einnig ýmsar góðar tillögur um hvernig stjórnvöld geti  eigi að bregðast við því. (Sjá hlekk að neðan).

https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Felagsmalaraduneytid/Sk%C3%BDrsla%20starfsh%C3%B3ps%20um%20heildarendursko%C3%B0un%2038-2018.pdf

Á fulltrúafundi Landssamtakanna Þroskahjálpar, sem var haldinn í október 2022 og aðildarfélög samtakanna taka þátt í, var eftirfarandi ályktun samþykkt.

Fulltrúafundur Landssamtakanna Þroskahjálpar fagnar tillögum starfshóps um endurskoðun laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, varðandi húsnæðismál fatlaðs fólks og skorar á ríkisstjórnina og sveitarfélög að hrinda þeim tillögum í framkvæmd, eins skjótt og nokkur kostur er.

Margt fólk með þroskahömlun eða skyldar fatlanir hefur beðið eftir íbúð, sem það á lagalegan rétt á, mjög lengi. Dæmi eru um að fólk með þroskahömlun hafi þurft að bíða yfir áratug og jafnvel lengur eftir að eignast eigið heimili.

Með þessari óforsvaranlegu og ólöglegu framkvæmd er vegið mjög alvarlega að margvíslegum mikilvægum mannréttindum, s.s. réttinum til sjálfstæðs og eðlilegs lífs, og réttinum til að eiga einkalíf og fjölskyldulíf. Þetta er ólíðandi ástand sem ábyrg stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga verða að setja í algjöran forgang að bæta úr.

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

 

Nálgast má þingsályktunartillöguna sem umsögnin á við hér