Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um þjónustu- þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa, 356. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um þjónustu-  þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa, 356. mál

     27. mars 2023

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið þingsályktunartillöguna til umsagnar og lýsa eindregnum stuðningi við hana.

Aðgengi að viðeigandi og nauðsynlegri þjónustu er afar takmörkuð fyrir einhverft fólk og einnig eru langir biðlistar og mjög löng bið eftir greiningu fyrir börn og er enn þá erfiðara fyrir fólk að fá slíka greiningu eftir 18 ára aldur.

Samtökin hafa undanfarin ár itrekað vakið athygli hlutaðeigandi stjrnvalda á þessu ófremdarástandi og því að mjög mikil þörf er fyr að setja á stofn þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir fatlað fólk 18 ára og eldra, þar sem það hefur nú eftir 18 ára aldur ekki aðgengi að þjónustu- og þekkingarmiðstöð. 

Bæta þarf aðgengi að þverfaglegri þjónustu sem sniðin er að fötlun viðkomandi, þar sem fullorðnu fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverfu fólki yrði boðið upp á þverfaglega og samfellda þjónustu og nauðsynlegt er að ábyrgð á veitingu þjónustunnar sé alveg skýr.

Slík stofnun ætti að veita þverfaglega þjónustu fyrir fatlað fólk eftir 18 ára aldur sem þarf sérhæfða þjónustu frá teymi með sérfræðilæknum, atferlisfræðingum, sálfræðingum, sjúkraþjálfurum, iðjuþjálfum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum, talmeinafræðingum og fleiri fagaðilum eftir aðstæðum þess og þörfum. 

Slík stofnun ætti að sinna einstaklingsmiðaðri fræðslu og ráðgjöf. Hún ætti einnig að veita ráðgjöf og eftirfylgd varðandi hegðun, líðan, hjálpartæki, tjáskipti, vegna sjaldgæfra sjúkdóma og fatlana. 

Ráðgjafar- og greiningarstöðin ætti að bera ábyrgð á yfirfærsluáætlun einstaklinga til nýrra stofnunar til að tryggja áframhaldandi þverfaglega þjónustu.

Samtökin óska eftir að fá að koma á fund velferðarnefndar til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi þetta mikilvæga mál.

 Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

 

Nálgast má þingsályktunartillöguna sem umsögnin á við hér.