Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um stefnu í neytendamálum til ársins 2030, 115. mál
21. október 2025
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur, stjórnarfrumvarp um lögfestingu samningsins var til meðferðar á síðasta þingi og er það einnig á yfirstandandi þingi og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu samningins.
4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir:
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
a) að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
c) að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, ...
Í samningnum er lögð mikil áhersla á skyldur ríkja til að gera ráðstafanir til að verja fatlað fólk fyrir mismunun af öllu tagi.
5. gr. samningsins hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun og hljóðar svo:
1. Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.
3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.
4. Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa.
Í samningi SÞ er viðeigandi aðlögun skilgreind svo:
Viðeigandi aðlögun merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.
Þá vilja samtökin í þessu sambandi benda á að í lögum nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, með síðari breytingum, eru ákvæði sem hafa verulega þýðingu m.t.t. þeirrar stefnu, sem hér er til umsagnar, s.s. í 9. gr. lagaanna sem hefur yfirskriftina Bann við mismunun í tengslum við vörukaup og þjónustu og hljóðar svo:
Hvers kyns mismunun vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr. í tengslum við aðgang að eða afhendingu á vöru er óheimil. Hið sama gildir um þjónustu og aðgang að þjónustu og jafnframt um húsnæði sem er í boði fyrir almenning. Ákvæði þetta gildir þó ekki um viðskipti á sviði einka- og fjölskyldulífs.
Í lögum um jafna meðferð utan vinnumarkaðar er einnig mælt fyrir um rétt fatlaðs fólks til viðeigandi aðlögunar og þar er viðeigandi aðlögun skilgreind með sama hætti og í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að atvinnuvegaráðherra leggi fram tillögu til þingsályktunar um stefnu í neytendamálum en samtökin telja augljóst að við gerð stefnunnar hefur afar lítið verið litið til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðs fólks, þrátt fyrir þær ríku skyldur sem stjórnvöld hafa til þess, sbr. það sem rakið er hér að framan. þá verður ekki séð að haft hafi verið samráð við réttinda- og hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Í því sambandi benda samtökin einnig á að í 8. lið aðgerðaráætlunar í stefnunni, sem hefur yfirskriftina Vernd viðkvæmra hópa eru réttinda- og hagsmunasamtök fatlaðs fólks ekki tilgreind sem samstarfsaðili (”Dæmi um samstarfsaðila: Neytendastofa, Neytendasamtökin, Fjármálaeftirlitið og Hagsmunasamtök heimilanna”).
Með vísan til framagreinds vilja Landssamtökin Þroskahjálp minna atvinnuvegaráðuneytið á samráðsskyldur þess samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Landssamtökin Þroskahjálp óska eftir að fá að koma á fund allsherjar- og menntamálanefndar til að gera grein fyrir áherslum og sjónarmiðum sínum varðandi það mál sem hér er til umfjöllunar.
Virðingarfyllst.
Guðmundur Ármann Pétursson, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér