Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um gjaldfrjálsar tannréttingar fyrir börn, 58. mál

 Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um gjaldfrjálsar tannréttingar fyrir börn, 58. mál

 

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið þingsályktunartillöguna til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri.

Landssamtökin Þroskahjálp, sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni, styðja þessa tillögu eindregið.  

Erlendar rannsóknir sýna að tannheilsa fatlaðra barna, ekki síst barna með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, er gjarnan verri en hjá öðrum hópum. Tannskekkja hefur svipað algengi meðal fatlaðra barna og barna sem ekki eru fötluð, nema þegar kemur að börnum með Cerebral palsy og Downs heilkenni. Þau eru líklegri til þess að þurfa á tannréttingum að halda en aðrir hópar. Því telja Landssamtökin Þroskahjálp þessa tillögu til þingsályktunar um gjaldfrjálsar tannréttingar afar mikilvæga fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra og styðja hana heilshugar.

Samtökin taka undir það sem fram kemur í greinargerð með tillögunni að óboðlegt sé að börnum sé mismunað eftir efnahag foreldra í þessu tilliti. Fatlað fólk er líklegra en aðrir hópar til þess að búa við fátækt og því er mikilvægt að tryggja að börn öryrkja og fatlaðs fólks fái aðgang að gjaldfrjálsum tannréttingum. Þá eru útgjöld fjölskyldna fatlaðra barna gjarnan meiri vegna fötlunar barnanna en hjá mörgum öðrum hópum og efnahagur þrengri þar sem rík umönnunarþörf hefur það oft í för með sér að foreldrar eru ekki eins virkir á vinnumarkaði.

Tillagan er því mikilvæg bæði fötluðum börnum og aðstandendum þeirra.

 

Virðingarfyllst,

Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum fatlaðra barna og ungmenna

 

Nálgast má þingsályktunartillöguna sem umsögnin á við hér.