Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, þingskjal 169- 167. mál

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið þingsályktunartillöguna til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og Alþingi varðandi hana.

Samtökin fagna því og styðja að „stjórnarmálefnið mannréttindi og mannréttindasáttmálar færist til forsætisráðuneytis.“

Samtökin trúa því og treysta að sú breyting sé til þess fallin að, án frekari tafa, verði hrint í framkvæmd þingsályktunartillögum, sem Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust en dómsmálaráðuneytið hefur af einhverjum ástæðum ekki framfylgt, um að leggja fram frumvarp um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðsfólks „með það að markmiði að samningurinn verði lögfestur eigi síðar en 13. desember 2020“[2]  og um að valkvæður viðauki við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks skyldi „fullgiltur fyrir árslok 2017“.[3]

Þá trúa samtökin því og treysta að ef stjórnarmálefnið mannréttindi og mannréttindasáttmálar færist frá dómsmálaráðuneytinu til forsætisráðuneytisins sé auknar líkur á að íslenska ríkið standi loks og án frekari tafa við þá þjóðréttarlegu skyldu, sem það tók á sig þegar það fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks fyrir meira en 5 árum síðan, að setja á fót sjálfstæða mannréttindastofnun, sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið (e. Paris Principles) til að hafa eftirlit með mannréttindum fatlaðs fólks.

 

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því og styðja að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið taki við „þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd frá dómsmálaráðuneytinu“. Eins og samtökin hafa ítrekað bent á hefur, að mati þeirra, mikið skort á að dómsmálaráðuneytið hafi tryggt að fatlað fólk, sem sótt hefur um hæli hér á landi eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum, hafi notið þeirrar verndar og réttinda sem íslenska ríkinu ber að tryggja því samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og íslenskum lögum. Samtökin trúa því og treysta að þessi breyting á verka-og ábyrgðarskiptingu ráðuneyta sé til þess fallin að auka líkur á að úr því verði bætt þó að dómsmálaráðuneytið muni „áfram fara með réttaraðstoð og hefðbundna stjórnsýslu við afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi hér á landi.“ Samtökin skora á dómsmálaráðuneytið að gera það sem gera þarf til að tryggja að fatlaðir hælisleitendur njóti  í raun þeirra mannréttinda og verndar sem þeim ber að njóta samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og öðrum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist sem og íslenskum stjónsýslulögum.

 

Það hlýtur að vekja athygli að í umfjöllun um félags- og vinnumarkaðsráðuneyti í þingsályktunartillögunni er ekki minnst á fatlað fólk. Ekki verður þó séð að fyrirhugðar séu breytingar á því að ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk og eftirlit með henni verði á verksviði félgsmála- og vinnumarkaðsráðherra, sbr. lög nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, lög nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk og lög nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, öll með síðari breytingum.

Fötluð börn njóta sérstakrar verndar samkvæmt þessum lögum, enda eru þau óumdeilanlega sá hópur barna sem berskjaldaðastur er og allar rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að mest hætta er á að fari á mis við réttindi, vernd og tækifæri. Fötluð börn njóta líka sérstakrar verndar og réttinda samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og í markmiðsgreinum (1. gr.) framannefndra laga er mælt fyrir um að við framkvæmd þeirra skuli samningnum framfylgt (l. 38/2018, l. 40/1991) eða hann hafður til viðmiðunar (l. 88/2011).

Ráðgjafar- og greiningarstöð gegnir augljóslega og óumdeilanlega algjöru lykilhlutverki m.t.t. fatlaðra barna, sbr. ákvæði laga um stofnunina nr. 83/2003. Landssamtökin Þroskahjálp telja því engin haldbær rök fram komin sem styðja fyrirætlanir samkvæmt þingályktunartillögunni um að flytja Ráðgjafar- og greiningarstöð frá félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytinu til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Samtökin telja þá breytingu alls ekki vera í þágu fatlaðra barna og alls ekki til þess fallna að tryggja betur samfellu í þjónustu við fötluð börn og farsæld þeirra eins og ríkisstjórnin leggur áherslu á að skuli gert. 

Þá ítreka samtökin enn að bráðnauðsynlegt  er að Ráðgjafar- og greiningarstöð sinni þjónustu við fullorðið fatlað fólk í mun meira mæli en verið hefur.

Með vísan til framangreinds skora Landssamtökin Þroskahjálp því á ríkisstjórnina, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og Alþingi að endurskoða fyrirætlun um flutning Ráðgjafar- og greiningarstöðvar frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

 

Í 9. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir segir:

„Fatlað fólk á rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir og félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og stuðlar að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu.“[4]

Þá segir í bráðabirgaðákvæði í lögunum að fötluðu fólki sem býr nú á stofnunum eða herbergjasambýlum skuli bjóðast aðrir búsetukostir.

Í 1. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, segir:

„Við framkvæmd laga þessara skal framfylgt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.“  (feitletr. og undirstr. Þroskahj.)

Í 19 gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina „Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu“ segir m.a.:

 „Aðildarríki að samningnum skulu „gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk megi að fullu njóta þessa réttar og fullrar aðildar og þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja ....að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima í tilteknu búsetuformi.“

Þrátt fyrir þessar skýru lagalegu og þjóðréttarlegu skyldur íslenskra stjórnvalda til að tryggja fötluðu fólki tækifæri til að eiga eigið heimili og hafa þar með einnig raunhæf tækifæri til að njóta margvíslegra annarra mannréttinda, sem því tengjast óaðskiljanlega og vitað er og viðurkennt að fatlað fólk fer mjög oft á mis við, s.s. tækifæri til einkalífs og fjölskyldulífs, vantar mjög mikið upp á að íslensk stjórnvöld hafi uppfyllt þessar skyldur sínar. Mjög margt fatlað fólk er á biðlistum hjá sveitarfélögum eftir húsnæði sem það á skýlausan lagalegan rétt á að fá og margir hafa verið mjög lengi á biðlistum og eru í fullkominni óvissu um hvenær þeir munu fá þann lagalega rétt uppfylltan sem þeir eiga.

Lög nr. 38/1990, um þjónustu við fatlað fólk, eru á verk- og ábyrgðarsviði félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra. Með vísan til þess sem og þess sem að framan er rakið um sérstakan og skýlausan lagalegan og þjóðréttarlegan rétt fatlaðs fólks til að fá viðeigandi húsnæði og skyldur stjórnvalda til að tryggja það, sbr. lög nr. 38/2018 og ákvæði samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og í ljósi þess hversu samtvinnaður sá réttur er öðrum mjög mikilsverðum mannréttindum og tækifærum sem mælt er fyrir um í þeim lögum og samningi SÞ, hafa samtökin miklar efasemdir um fyrirætlanir samkvæmt þingsályktunartillögunni um að flytja ábyrgð á húsnæðismálum fatlaðs fólks frá félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytinu til nýs innviðaráðuneytis.

Samtökin kalla því eftir að ríkisstjórnin upplýsi, skýri og rökstyðji hvernig sú breyting getur orðið þannig að tryggt verði að réttindi og hagsmunir fatlaðs fólks á þessu sviði fá þann forgang  sem á að vera samkvæmt lagalegum og þjóðréttarlegum skyldum stjórnvalda.

Í umfjöllun um félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytið í þingsályktuninni kemur fram að að „framkvæmd laga um framhaldsfræðslu verði á ábyrgð félags- og vinnumarkaðsráðuneytis.“ Landssamtökin Þroskahjálp gera ekki athugsemd við það en árétta að mjög mikilvægt er að verka- og ábyrgðarskipting stjórnvalda hvað varðar menntunartækifæri fyrir fatlað fólk sé eins skýr og kostur er og til þess fallin að skipulega og markvisst og í samfellu sé og verði unnið í þeim mikilvægu málum. Þar er mjög mikið verk að vinna og bráðnauðsynlegt er að auka námsframboð til fatlaðra ungmenna sem hafa lokið námi á starfsbrautum framhaldsskóla til að þau fái einhver tækifæri til að feta sig eftir áhugasviði og eftir getu inn á námsbrautir og inn á áfanga sem geta eflt og styrkt þau til frekari færni og gera sig þannig meira gildandi sem góða starfsmenn á hinum ólíku sviðum atvinnulífsins. Og einnig og ekki síður til þess að þau fái, eins og önnur ungmenni, að njóta þeirra lífsgæða sem í því felast að hafa tækifæri til að efla færni sína til að taka þátt í samfélaginu á eigin forsendum, án þess að verða endilega sérfræðingar í einhverju einu tilkteknu fagi, heldur fái menntun sem er valdeflandi og gerir þau færari til að takast á við störf í hinum ýmsu greinum.

Þá taka Landssamtökin Þroskahjálp heils hugar undir það sem segir í umsögn Flensborgarskóla um þingsályktunartillöguna varðandi nauðsyn þess að staða framhaldsskóla og  nemenda þeirra sem eru eldri en 18 ára verði skýrð mun betur en gert er í tillögunni og hvernig verka- og ábyrgðarskiptingu ráðuneyta gagnvart þeim verður háttað. Samtökin taka einnig undir að aðfinnsluvert sé hversu lítið er fjallað um framhaldsskóla í þingsályktunartillögunni og ekkert um starfsbrautir þeirra, sem eru gríðarlega mikilvægar m.t.t. menntunar fatlaðra barna og ungmenna og margvíslegra tækifæra þeirra í lífinu sem eru eðli máls samkvæmt mjög háð menntun, s.s. tækifæri til frekari menntunar og tækifæri á vinnumarkaði sem gerir nú og mun á næstu árum gera sífelt meiri kröfur til menntunar vegna vaxandi notkunar gervigreindar og sjálfvirknivæðingar starfa.

 

Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá fund með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum, áherslum og tillögum.

Virðingarfyllst,

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má þingsályktunartillöguna sem umsögnin á við hér

[1]Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum.

[2] https://www.althingi.is/altext/149/s/1690.html

[3] https://www.althingi.is/altext/145/s/1693.html

[4]  9. gr. Búseta.
 Fatlað fólk á rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir og félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og stuðlar að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu. Um húsnæði fyrir fatlað fólk gilda ákvæði skipulags- og byggingarlaga, lög um húsnæðismál og lög um almennar íbúðir, eftir því sem við á.
 Fatlað fólk á rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra. Óheimilt er að binda þjónustu við fatlað fólk því skilyrði að það búi í tilteknu búsetuformi.