Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um Barnvænt Ísland – framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 762. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið þingsályktunartillöguna til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi hana.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks og hafa allt frá stofnun samtakanna árið 1976 lagt sérstaka áherslu á réttindi og hagsmuni fatlaðra barna og ungmenna. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Þá taka verkefni, starfsemi og stefnumál samtakanna ævinlega mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi faltaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja samningnum á öllum sviðum samfélagsins. Í þingsályktun sem Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust 3. september 2019 segir:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Frumvarp, sem feli í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum, verði lagt fram á Alþingi með það að markmiði að samningurinn verði lögfestur eigi síðar en 13. desember 2020.“

Þrátt fyrir þessi skýru fyrirmæli Alþingis til framkvæmdavaldsins hefur frumvarp um lögfestingu samningsins ekki enn verið lagt fram. Landssamtökin Þroskahjálp harma að þingsályktanir sem varða réttindi fatlaðs fólks skuli ítrekað vera virtar að vettugi af hálfu framkvæmdavaldsins og hvetja Alþingi eindregið til að standa betur vörð um að framkvæmdavaldið fylgi samþykktum þess almennt og sérstaklega þegar um framfylgd og vernd mannréttinda fatlaðs fólks er að ræða.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Íslandi árið 2013. Báðir hafa þessir mannréttindasmaningar óumdeilanlega mjög miklar skyldur í för með sér fyrir íslenska ríkið hvað varðar lagasetningu og stefnumótun sem varðar aðstæður, réttindi og tækifæri fatlaðra barna.

Í 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi faltaðs fólks segir undir yfirskriftinni “fötluð börn”:

      1.      Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fötluð börn fái notið allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til fulls og jafns við önnur börn.

     2.      Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.

     3.      Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll málefni er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefið tilhlýðilegt vægi í samræmi við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er viðeigandi tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika.

Um þær almennu skuldbindingar gagnvart fötluðu fólki sem ríki undirgangast með fullgildinu samningsins segir í 4. gr. sem hefur yfirskriftina “Almennar skuldbindingar”:

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.

        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,

         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,

         c)          að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð,

         d)          að aðhafast ekkert það sem fer í bága við samning þennan og sjá til þess að opinber yfirvöld og stofnanir vinni í samræmi við ákvæði hans,

         e)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að uppræta mismunun á grundvelli fötlunar af hálfu sérhvers einstaklings, samtaka eða einkaaðila, ... (Feitletranir Þroskahj.).

 

Fötluð börn njóta réttinda og verndar samkvæmt öllum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en einnig sérstakrar verndar og réttinda því til viðbótar samkvæmt öllum ákvæðum barnasáttmála SÞ. Í barnasáttmálanum er einnig sérstök grein þar sem réttindi fatlaðra barna eru sérstaklega áréttuð. Þar segir:

     1. Aðildarríki viðurkenna að andlega eða líkamlega fatlað barn skuli njóta fulls og sómasamlegs lífs, við aðstæður sem tryggja virðingu þess og stuðla að sjálfsbjörg þess og virkri þátttöku í samfélaginu.

     2. Aðildarríki viðurkenna rétt fatlaðs barns til sérstakrar umönnunar, og skulu þau stuðla að því og sjá um að barni sem á rétt á því, svo og þeim er hafa á hendi umönnun þess, verði eftir því sem föng eru á veitt sú aðstoð sem sótt er um og hentar barninu og aðstæðum foreldra eða annarra sem annast það.

     3. Með tilliti til hinna sérstöku þarfa fatlaðs barns skal aðstoð samkvæmt 2. tölul. þessarar greinar veitt ókeypis þegar unnt er, með hliðsjón af efnahag foreldra eða annarra sem hafa á hendi umönnun þess, og skal hún miðuð við að tryggt sé að fatlaða barnið hafi í raun aðgang að og njóti menntunar, þjálfunar, heilbrigðisþjónustu, endurhæfingar, starfsundirbúnings og möguleika til tómstundaiðju, þannig að stuðlað sé að sem allra mestri félagslegri aðlögun og þroska þess, þar á meðal í menningarlegum og andlegum efnum.

     4. Aðildarríki skulu í anda alþjóðlegrar samvinnu stuðla að því að skipst sé á viðeigandi upplýsingum um fyrirbyggjandi heilsugæslu og læknisfræðilega, sálfræðilega og starfræna meðferð fatlaðra barna, þar á meðal með dreifingu á og aðgangi að upplýsingum um endurhæfingaraðferðir, menntun og atvinnuhjálp, er miði að því að gera aðildarríkjum kleift að bæta getu sína og færni og auka reynslu sína að þessu leyti. Hvað þetta snertir skal tekið sérstakt tillit til þarfa þróunarlanda.

Þau miklu og mikilsverðu mannréttindi fatlaðra barna sem eru áréttuð, tilgreind og varin í umræddum mannréttindasamningum eru skýr viðurkenning alþjóðasamfélagsins og íslenska ríkisins, sem hefur undirgengist þessa samninga, á því hversu berskjölduð fötluð börn eru og hversu mikil hætta er á að þau þurfi að þola mannréttindabrot og mismunun á öllum sviðum. Þá leggja báðir þessir samningar áherslu á vernd fatlaðra barna gegn ofbeldi af öllu tagi, svo sem hvers kyns misnotkun og einelti. Því miður sýna rannsóknir, svo að ekki verður um villst, að fötluð börn eru langtum líklegra til þess að verða fyrir hvers kyns ofbeldi og misnotkun en þau sem ekki eru fötluð.

Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað og skýrt lýst því yfir að þau vilji vinna og móta stefnu með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi og leggja sig fram við að standa við loforðið sem þar er að um að “skilja engan eftir.” Ljóst er að til að það takmark náist þarf að horfa sérstaklega til viðkvæmustu hópanna, þ.á.m. fatlaðra barna og gæt réttinda þeirra og hagsmuna sérstaklega við innleiðingu heimsmarkmiðinna. Því miður hefur það allt of oft verið hlutskipti fatlaðra barna að vera skilin eftir, sem birtist bæði í því að þau njóta færri tækifæra en börn almennt, til dæmis til þátttöku í tómstundastarfi og félagslífi án aðgreiningar og enn færri tækifæra til náms og starfa þegar grunn- og framhaldsskólamenntun lýkur. Veik staða fatlaðra barna og fatlaðs fólks almennt hefur neikvæð áhrif á næstum öll áform ríkisstjórnarinnar sem tengjast heimsmarkmiðunum og forgangsmarkmiðum sem miða að því að draga úr fátækt, bæta menntun fyrir alla, vinna gegn ofbeldi, efla jafnrétti, auka færni í anda sjálfbærni og stuðla að heilbrigði.

Öll stefnumótun íslenskra stjórnvalda sem varða börn verður að taka mið af þeirri staðreynd að fötluð börn njóta færri tækifæra en ófötluð og eru óumdeilanlega líklegri til þess að sæta mismunun á flestum sviðum og verða fyrir alls kyns ofbeldi. Við alla stefnumótun varðandi réttindi, vernd og tækifæri barna verður einnig að líta til þess að fötluð börn njóta mjög mikilla réttinda samkvæmt þeim mannréttindasamningum sem hér hefur verið vísað til og íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að virða og framfylgja. Allar aðgerðir sem fjalla um börn almennt verða því að að miða að því að tryggja fötluðum börnum öll réttindi og tækifæri til jafns við önnur börn og verja þau með öllum tiltækum ráðum fyrir mismunun og ofbeldi af öllu tagi. Af þessu leiðir að huga verður ávallt og sérstaklega að stöðu og þörfum fatlaðra barna og útfæra stefnur og innleiðingu þeirra með sérstakar þarfir fatlaðra barna í huga. Ekki má ætla að þörfum þeirra sé sjálfkrafa mætt og réttindi þeirra uppfyllt innan ramma sem fjallar um börn almennt. Tryggja þarf viðbótarstuðning með viðeigandi aðlögun á öllum sviðum. 

Með vísan til þess sem að framan segir vilja Landssamtökin Þroskahjálp koma eftirfarandi á framfæri varðandi þá þingsályktunar tillögu sem hér er til umsagnar:

  1. Í þingsályktunartillögunni er að finna aðgerðir sem eru til þess fallnar að bæta stöðu barna og innleiðingu barnasáttmálans. Meðal annars eru áform um að vinna heildstæða stefnu um málefni barna sem m.a tekur með af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Landssamtökin Þroskahjálp fagna þessu sérstaklega. Einnig aðgerð sem felur í sér að íslensk löggjöf verði samræmd barnasáttmálanum og að stjórnvöld uppfylli frekari skulbindingar er varða rétt barna.

Samtökin lýsa yfir mikilli ánægju með þessar áherslur og ítreka mikilvægi þess að gæta sérstaklega að hagsmunum fatlaðra barna. Samtökin lýsa yfir vilja til þess að taka þátt í vinnu við koma þessum mikilvægu verkefnum til framkvæmdar, en skylt er samkvæmt ákvæði í 4. grein samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að hafa samráð við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess í verkefnum sem þessum. Þar segir:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. (Feitletr. Þroskahj.).

  1. Í tillögunni er fjallað er um markvissa öflun gagna, m.a. í tengslum við farsældarmælaborðið. Landssamtökin Þroskahjálp benda á mikilvægi þess að sundurgreina tölfræðigögn með tiliti til fötlunar svo mögulegt sé að leggja mat á raunverulega stöðu fatlaðra barna, svo sem skylt er að gera samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
  2. Í tillögunni er talsvert fjallað um samráð við börn og mikilvægi þess að slíkt samráð endurspegli raddir ólíkra hópa barna. T.a.m. eru uppi áform um að koma á fót rafrænum þátttökuvettvangi og opna barnvæna samráðsgátt. Landssamtökin Þroskahjálp lýsa ánægju með þessi áform og eru reiðubúin til samstarfs um að tryggja tækifæri fatlaðra barna til þátttöku. Við ítrekum að í verkefnum sem þessum er nauðsynlegt að gera sérstaklega ráð fyrir fötluðum börnum, og veita stuðning svo það sé raunverulegur valkostur fyrir þau að taka þátt. Þá bendum við einnig á ungmennaráð Þroskahjálpar, sem skipað er ungmennum á aldrinum 16 – 24 ára, er ávallt reiðubúið til samráðs um málefni ungs fólks og aðferðafræði til að tryggja þátttöku fatlaðra barna og ungmenna.

Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá fund með velferðarnefnd til að gera betur grein fyrir sjónarmiðum sínum og áherslum varðandi þingsályktunartillöguna.

Virðingarfyllst,

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálp.

Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum barna og ungmenna.

Nálgast má þingsályktunartillöguna sem umsögnin á við hér.