Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um bætta stjórnsýslu í umgengnismálum, Þingskjal 105 — 104. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum.

Landssamtökin Þroskahjálp styðja þau sjónarmið sem fram koma í tillögunni og taka undir mikilvægi þess að gera breytingar á lögum sem varða umgengnis- og forræðismál með það að markmiði að staðið verði við skuldbindingar samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og gæðaviðmið stjórnsýslu verði uppfyllt, m.a með því að hraða málsmeðferðartíma, tryggja viðeigandi aðferðafræði í viðtölum við börn og skýrari viðmið um það sem er barni fyrir bestu sem og að setja starfsreglur um framkvæmd þeirra. Samtökin benda á mikilvægi þess að sú vinna taki einnig mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslensk stjórnvöld innleiddu árið 2016 og skuldbundu sig þar með til að framfylgja. 7. gr. hans fjallar um fötluð börn og þar segir:

1. Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið fullra mannréttinda og mannfrelsis til jafns við önnur börn.

2. Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.

3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska, til jafns við önnur, börn og veita þeim aðstoð, þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs, til þess að sá réttur megi verða að veruleika.

Með ofangreint í huga benda Landssamtökin Þroskahálp á mikilvægi þess að viðtalstækni sem notuð er í umgengnismálum er varða fötluð börn taki mið af fötlun og aðstæðum barnsins, þar á meðal þegar um ræðir börn með þroskahömlun og skyldar fatlanir, eins og samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveður á um.

Einnig bendum við á mikilvægi þess að til séu skýr viðmið, sem taka tillit til fötlunar, um hvað telst fötluðu barni fyrir bestu í tilvikum þar sem umgengnismál varða fötluð börn og að réttur þeirra sé virtur í hvívetna til jafns við önnur börn.

Virðingarfyllst.

Bryndís Snæbjörndsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna og ungmenna

Nálgast má þingsályktunartillögu sem umsögnin á við hér: