Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024 – 2028, 804. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun um eflingu barnamenningar fyrir árin 2024 – 2028, 804. mál

        23. mars 2023

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og heimsmarkmiðum SÞ, þar sem meginmarkmiði er að skilja engan eftir.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið þingsályktunartillöguna til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi hana.

  • Það veldur óneitanlega verulegum vonbrigðum að í aðgerðaráætluninni sem hér er til umsagnar er ekki gerð minnsta tilraun til þess að gera grein fyrir því hvernig fötluð börn og aðrir jaðarsettir hópar barna eiga að njóta þessarar stefnu. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir m.a.:  

Þingsályktunartillagan var kynnt sem drög í samráðsgátt stjórnvalda hinn 18. janúar sl. (mál nr. S-9/2023). Alls bárust 14 umsagnir frá ýmsum hagsmunahópum, félagasamtökum, sveitarfélögum o.fl. Almennt nýtur tillagan mikils stuðnings hjá þeim sem sendu inn umsagnir. Sumar umsagnir ná út fyrir þann ramma sem þessi tillaga fjallar um en þar eru þó engu að síður gagnlegar athugasemdir og ábendingar til stjórnvalda um hvað þarf að hafa í huga við að móta stefnu og úthluta fjármunum. Meðal þess sem kom fram var mikilvægi þess að miðstöðin, verkefnin og sjóðurinn næðu til allra barna óháð búsetu, fjárhagsstöðu, fötlun o.s.frv. Meginbreytingin sem gerð var á tillögunni í kjölfar samráðs varðaði mönnun stjórna og upptalningu mögulegra samstarfsaðila, þótt það sé engan veginn tæmandi listi. (Feitletr. Þroskahj.)

Landssamtökin Þroskahálp telja nauðsynlegt að forsætisráðuneytið skýri hvort skilja eigi ofangreind orð svo að krafan um að barnamenning nái til og geri ráð fyrir öllum börnum sé fyrir utan þann ramma sem tillagan fjallar um?

  • Í áætluninni er hvergi minnst á fötluð börn, gengist við því að beita þurfi sérstakri nálgun til að bjóða þeim og hvetja til þátttöku í barnamenningu eða minnst á hindranir sem torvelda eða koma í veg fyrir aðgengi þeirra að lista- og menningarlífi.

 

 

  • Í áætluninni eru ekki aðgerðir til að bæta aðgengi fatlaðra barna að menningarlífi eða til að eiga samráð við fötluð börn og/eða hagsmunasamtök sem koma fram fyrir þeirra hönd um viðfangsefni þau sem fjallað er um í þingsályktunartillögunni.

 

  • Í umsögn samtakanna þegar þetta mál var í samráðsgátt var bent á að nauðsynlegt væri að gera viðeigandi og fullnægjandi ráðstafanir til að fötluð börn og ungmenni verði þátttakendur í barnamenningarverkefninu List fyrir alla. Samtökin árétta þá ábendingu hér.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eru ýmis ákvæði sem hafa mikla þýðingu m.t.t. þess máls sem hér er til umfjöllunar og framangreindra áhersluatriða Þroskahjálpar.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er hafin af hálfu ríkisins framkvæmd sérstakrar landsáætlunar um innleiðingu hans.

Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki mannréttindi og raunhæf tækifæri til virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins, til jafns við aðra og án aðgreiningar.

4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingarÞar segir m.a.:

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
         c)          að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, … 
(Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)

Í 7. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Fötluð börnsegir:

     1.      Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fötluð börn fái notið allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til fulls og jafns við önnur börn. 
     2.      Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu. 
     3.      Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll málefni er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefið tilhlýðilegt vægi í samræmi við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er viðeigandi tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika.

5. gr. samningsins hefur yfirskiftina Jafnrétti og bann við mismunun og hljóðar svo:

      1.      Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er. 
     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 
     4.      Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa. 
(Feitletr. Þroskahj.)

30. gr. samningsins hefur yfirskriftina Þátttaka í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfiÞar segir:

     1.      Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í menningarlífi til jafns við aðra og skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk:
         a)          njóti aðgengis að menningarefni í aðgengilegu formi,
         b)          njóti aðgengis að sjónvarpsefni, kvikmyndum, leikhúsi og öðrum menningarviðburðum í aðgengilegu formi,
         c)          njóti aðgengis að stöðum þar sem flutningur menningarefnis eða þjónusta á sviði menningar fer fram, t.d. leikhúsum, söfnum, kvikmyndahúsum, bókasöfnum og ferðaþjónustu og njóti, eftir því sem við verður komið, aðgengis að minnisvörðum og stöðum sem hafa þjóðmenningarlegt gildi.
     2.      Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái tækifæri til að þróa og nota sköpunargáfu sína og listræna og vitsmunalega getu, ekki einvörðungu í eigin þágu, heldur einnig í því skyni að auðga samfélagið.
     3.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir, í samræmi við alþjóðalög, til þess að tryggja að lög, sem vernda hugverkarétt, feli ekki í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki eða óréttmætar hindranir við aðgang þess að menningarefni.
     4.      Fatlað fólk skal eiga rétt, til jafns við aðra, á viðurkenningu og stuðningi við sérstaka menningar- og tungumálssjálfsmynd sína, þar á meðal táknmál og menningu heyrnarlauss og heyrnarskerts fólks. …
(Feitletr. og undirstr. Þroskahj.).

Í 3. mgr. 4. gr. samningins sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar segir:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. (Feitletr. Þroskahj.).

Samtökin óska eftir að fá að koma á fund allsherjar- og menntamálanefndar til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi þetta mikilvæga mál.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna og ungmenna

 

Nálgast má þingsályktunartillöguna sem umsögnin á við hér.