Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023 – 2026, 795. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um aðgerðaráætlun gegn hatursorðræðu fyrir árin 2023 – 2026, 795. mál

        22. mars 2023

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið þingsályktunartillöguna til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi hana.

  • Mjög mikilvægt er að sérstaklega verði eyrnamerktir peningar til að vinna gegn hatursorðræðu gagnvart fyrir fötluðu fólki. Sá hópur er sjaldnast til umræðu um fordóma og hatursorðræðu í íslensku samfélagi og mikil hætta er á að hann gleymist í almennri umræðu um hatursorðræðu.
  • Algeng viðbrögð við hatursorðræðu gegn fötluðu fólki er að ráðleggja því eða jafnvel að banna því að nota netið. Aðrir jaðarsettir hópar þurfa ekki að búa við slíka forræðishyggju og jafnvel nauðung í daglegu lífi.
  • Krafa Þroskahjálpar er að fatlað fólk komi að öllum liðum aðgerðaráætlunarinnar. – Sjá umfjöllun hér á eftir um ákvæði um samráðsskyldur stjórnvalda samkvæmt 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
  • Allt of algengt er að þegar gögnum er safnað, sbr. 7. lið áætlunarinnar, að fötlun sé ekki þáttur sem er skoðaður sérstaklega. Krafa Þroskahjálpar er að öllum gögn sem verði safnað, taki einnig til fatlaðs fólks.
  • Mikil skortur er á fræðsluefni um hatursorðræðu á auðskildu máli. Of mikil áhersla hefur verið á að kenna fötluðu fólki að vernda sig en ekki á að það eigi rétt til lífs án ofbeldis.
  • Samtökin fagna sérstaklega 14. lið áætlunarinnar, enda er fatlað fólk mjög berskjaldað gagnvart heilbrigðisstarsfólki og læknisfræðilegri nálgun á fötlun.
  • Upplýsingavefsvæði sem um er fjallað í 17. lið áætlunarinnar þarf einnig að vera á auðskildu máli og íslensku táknmáli.

 

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eru ýmis ákvæði sem hafa mikla þýðingu m.t.t. þess máls sem hér er til umfjöllunar og framangreindra áhersluatriða Þroskahjálpar.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er hafin af hálfu ríkisins framkvæmd sérstakrar landsáætlunar um innleiðingu hans.

 

 

 

4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingarÞar segir m.a.:

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
         c)          að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, … 
(Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)

Í 1. gr. samningsins segir m.a.: „Markmiðið með samningi þessum er að stuðla að, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og að jöfnu allra mannréttinda og mannfrelsis og að stuðla að virðingu fyrir eðlislægri reisn þess.“ Og í 3. gr. samningsins kemur fram að virðing fyrir eðlislægri reisn fatlaðs fólks sé ein af meginreglum samningsins.

Í 8. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Vitundarvakning“ segir m.a. að ríki sem hafa fullgilt samninginn skuli „samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir ... til þess að stuðla að vitundarvakningu alls staðar innan samfélagsins, einnig á vettvangi fjölskyldunnar, um fatlað fólk og að auka virðingu fyrir réttindum og mannlegri reisn þess“, og „til þess að vinna á móti staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, einnig þeim sem eru reist á kyni og aldri, á öllum sviðum lífsins.“

16. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum.“ Þar er kveðið á um ýmsar skyldur ríkja sem hafa fullgilt samninginn til að vernda fatlað fólk fyrir ofbeldi af ýmsu tagi. Þau ákvæði samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem vísað er til hér að framan eru viðurkenning ríkja heims á þeirri staðreynd að fatlað fólk hefur orðið fyrir og verður enn fyrir miklum fordómum sem m.a. birtast í neikvæðri og lítillækkandi orðræðu, mismunun og ofbeldi af ýmsu tagi hvarvetna í heiminum. Ísland er engin undantekning frá því eins og dæmin sýna.

31. gr. samningsins hefur yfirskriftina Tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun.“ Þar segir m.a.:


Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og framfylgja stefnum samningi þessum til framkvæmdar. … Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að innleiða skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og takast á við þær hindranir sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín.

Í 3. mgr. 4. gr. samningins sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar“ segir:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. (Feitletr. Þroskahj.).

Samtökin óska eftir að fá að koma á fund allsherjar- og menntamálanefndar til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi þetta mikilvæga mál.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, sérfræðingur í málefnum fatlaðs fólks

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri

 

Nálgast má þingsályktunartillöguna sem umsögnin á við hér.