Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um stefnumótun í málefnum barna.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna fyrirhugaðri stefnumótun í málefnum barna og þeirri áherslu á réttindi og hagsmuni barna sem hún endurspeglar. Samtökin vilja á þessu stigi koma eftirfarandi á framfæri varðandi stefnumótunina.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks[1] árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum hans á öllum þeim sviðum sem hann nær til með með því að gera nauðsynlegar ráðstafanir í því skyni.  4. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar og þar segir m.a.:

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. 
    Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð,
... 

Í samningnum er lögð mjög mikil áhersla á skyldur ríkja til að tryggja fötluðum börnum sömu réttindi og tækifæri og öðrum börnum og möguleika til sjálfstæðs og eðlilegs lífs og virkrar þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar.[2]

Í 3. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“ segir:  

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. 

Öll ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem tekinn var í íslensk lög árið 2013, eiga að sjálfsögðu við um fötluð börn jafnt og önnur börn. Tiltekin réttindi fatlaðra barna eru auk þess sérstaklega áréttuð í 23. gr. samningsins.[3]

Með vísan til þess sem að framan er rakið telja Landssamtökin Þroskahjálp mjög mikilvægt að við stefnumótun í málefnum barna verði sérstaklega litið til stöðu, aðstæðna þarfa og réttinda fatlaðra barna. Mjög mikilvægt er einnig að við þá vinnu verði haft náið samráð við fötluð börn með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þeirra hönd, eins og skylt er samkvæmt tilvtnuðu álkvæði 3. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Landssamtökin Þroskahjálp lýsa hér með yfir vilja og áhuga til að taka virkan þátt í því samráði.

 

Að lokum vilja samtökin sérstaklega nefna tvö atriði sem þau telja mjög brýnt að stjórnvöld hugi sérstaklega að við stefnumótun í málefnum barna.

Mikið vantar á að stjórnvöld safni skipulega nauðsynlegum tölfræðilegum gögnum varðandi stöðu fatlaðra barna og vinni úr þeim með viðeigandi hætti. Þá vantar nauðsynlegar rannsóknir á ýmsu sem lýtur að stöðu og réttindum fatlaðra barna. Þetta leiðir til að umræða um stöðu fatlaðra barna verður ómarkviss sem og ákvarðanir og stefnumótun stjórnvalda á þessu sviði.  Afar mikilvægt er að stjórnvöld bæti úr þessu.

Innflytjendum hefur fjölgað mjög mikið á Íslandi á undanförnum árum. Margt bendir til að fötluð börn innflytjenda njóti ekki sömu tækifæra og mannréttinda og önnur fötluð börn í landinu. Ástæður þessa kunna að vera margvíslegar og mismunandi. Augljós hætta er á að þessi börn kunna að verða fyrir mismunun, jafnvel margþættri, af ástæðum sem fara í bága við alþjóðleg mannréttindi, s.s. á grundvelli uppruna,  tungumáls, trúarbragða, kynþáttar eða litarháttar. Sama á við um börn í hópi hælisleitenda og flóttafólks. Skortur er á áreiðanlegum upplýsingum um stöðu þessara barna sem takmarkar möguleika til upplýstrar umræðu og töku ákvarðana á grundvelli áreiðanlegra upplýsinga og markvissrar stefnumótunar og aðgerða stjórnvalda í þágu þessara barna.

  

 

 



[1] https://www.althingi.is/altext/145/s/1637.html

[2] 7. gr.    Fötluð börn.

 1.      Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við önnur börn. 
     2.      Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu. 
     3.      Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika. 

[3] 1. Aðildarríki viðurkenna að andlega eða líkamlega fatlað barn skuli njóta fulls og sómasamlegs lífs, við aðstæður sem tryggja virðingu þess og stuðla að sjálfsbjörg þess og virkri þátttöku í samfélaginu. 

2. Aðildarríki viðurkenna rétt fatlaðs barns til sérstakrar umönnunar, og skulu þau stuðla að því og sjá um að barni sem á rétt á því, svo og þeim er hafa á hendi umönnun þess, verði eftir því sem föng eru á veitt sú aðstoð sem sótt er um og hentar barninu og aðstæðum foreldra eða annarra sem annast það. 

3. Með tilliti til hinna sérstöku þarfa fatlaðs barns skal aðstoð samkvæmt 2. tölul. þessarar greinar veitt ókeypis þegar unnt er, með hliðsjón af efnahag foreldra eða annarra sem hafa á hendi umönnun þess, og skal hún miðuð við að tryggt sé að fatlaða barnið hafi í raun aðgang að og njóti menntunar, þjálfunar, heilbrigðisþjónustu, endurhæfingar, starfsundirbúnings og möguleika til tómstundaiðju, þannig að stuðlað sé að sem allra mestri félagslegri aðlögun og þroska þess, þar á meðal í menningarlegum og andlegum efnum. 

4. Aðildarríki skulu í anda alþjóðlegrar samvinnu stuðla að því að skipst sé á viðeigandi upplýsingum um fyrirbyggjandi heilsugæslu og læknisfræðilega, sálfræðilega og starfræna meðferð fatlaðra barna, þ. á m. með dreifingu á og aðgangi að upplýsingum um endurhæfingaraðferðir, menntun og atvinnuhjálp, er miði að því að gera aðildarríkjum kleift að bæta getu sína og færni og auka reynslu sína að þessu leyti. Hvað þetta snertir skal tekið sérstakt tillit til þarfa þróunarlanda.

 

Málið sem umsögnin á við má skoða hér