Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlað fólk samkvæmt lögum nr. 38/2018 – Innleiðing sveitarfélaga, stjórnsýsluúttekt.

 Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um þjónustu við fatlað fólk samkvæmt lögum nr. 38/2018 – Innleiðing sveitarfélaga, stjórnsýsluúttekt.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir að hafa fengið skýrsluna til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfærandi, sem hefur að mati samtakanna mikla þýðingu varðandi þessa úttekt og skýrslu Ríkisendurskoðunar og þau viðfangsefni sem þar eru til umfjöllunar.

 

Framkvæmd þingsályktunar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks[1] og yfirlýsingar um lögfestinguna í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Samkvæmt ályktun sem Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust 3. júní 2019 átti að leggja fram frumvarp um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eigi síðar en 13. desember 2020. Það hefur ekki enn verið gert.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir:

“Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur og stofnuð ný Mannréttindastofnun.“

Í stjórnarsáttmálanum segir hins vegar ekkert um hvenær samningurinn verður lögfestur og ekki verður séð að gert sé ráð fyrir því í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir löggjafarþing 2021 – 2022 eða fjárlögum fyrir árið 2022.

Lögfesting samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks er afar mikilvægur liður í að tryggja betri framfylgd laga nr. 38/2018 af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Það hlýtur því að valda verulegum vonbrigðum og áhyggjum, í ljósi þess að nú er liðið meira en ár frá því að leggja átti fram frumvarp um lögfestingu samningsins, að það skuli ekki tilgreint í stjórnarsáttmálanum hvenær eigi að framfylgja þessari þingsályktun og standa við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um lögfestingu samningsins. 

 

Framkvæmd þingsályktunar um fullgildingu valkvæðs viðauka við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks[2].

Alþingi ályktaði mótatkvæðalaust árið 2016 að valkvæður viðauki við samning SÞ skyldi fullgiltur fyrir árslok 2017. Það hefur nú meira en 5 árum seinna ekki enn verið gert. Í 1. gr. laga nr. 38/2018 er mælt fyrir um að við framkvæmd laganna skuli framfylgt skuldbindingum samkvæmt samningi SÞ. Fullgilding viðaukans myndi veita fötluðu fólki og hópum, sem hafa fullreynt innlendar leiðir til að ná rétti sem samningurinn mælir fyrir um, rétt til að leita með mál sín til nefndar samkvæmt samningnum. Sá réttur veitir mikilvægt aðhald gagnvart hlutaðeigandi stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga. Fullgilding valkvæða viðaukans er þannig mikilvægur liður í að tryggja betri framfylgd laga nr.  38/2018 af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Samtökin telja því nauðsynlegt að ríkið geri grein fyrir stöðunni og fyrirætlunum hvað varðar fullgildingu viðaukans

Réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa ítrekað skorað á félagsmálaráðuneytið að láta fara sem fyrst fram vandaða heildarendurskoðun á réttindagæslu fyrir fatlað fólk, þ.m.t. á lögum nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, m. s. br., m.t.t. að tryggja að þau veiti fötluðu fólki örugglega þá réttindavernd og stuðning sem samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks mælir fyrir um. Þrátt fyrir þær áskoranir og augljósa þörf fyrir endurskoðunina hefur ráðuneytið ekki enn brugðist við.

Þá telja samtökin að ríkið verði að skýra hvaða fyrirætlanir það hefur varðandi réttindagæsluna sem bráðnauðsynlegt er að styrkja og koma þannig fyrir í stjórnkerfinu að hún virki sem best og sé sem minnst háð stjórnvöldum ríkis og sveitarfélaga, sem hún þarf að hafa eftirlit með beint eða óbeint. Í því sambandi telja samtökin mjög æskilegt að réttindagæslan verði tekin undan félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytinu, sem hún fellur nú undir og er alls ekki eðlilegt m.t.t. eftirlitsverkefna hennar og færð undir óháða mannréttindastofnun sem hefur eftirlit með mannréttindum fatlaðs en ríkinu er skylt að stofna þannig stofnun samkvæmt 33. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

 

Samtökin lögðu mjög mikla áherslu á að Ríkisendurskoðun leitaði álits réttindagæslu félagsmálaráðuneytisins á þeim atriðum sem hún hafði til skoðunar við þessa úttekt og fengi frá réttindagæslunni gögn og skýrslur um starfsemi hennar, verkefni og hindranir sem upp koma við eftirlit með að fatlað fólk njóti þeirra réttinda sem það á að njóta samkvæmt lögum nr. 38/2028 og samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sbr. eftirfarandi ákvæði í 1. gr. laganna sem hefur yfirskriftina “Markmið”:

 

Við framkvæmd laga þessara skal framfylgt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

 

Landssamtökin Þroskahjálp hvetja stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eindregið til að fá upplýsingar hjá Ríkisendurskoðun og réttindagæslu fyrir fatlað fólk um hvaða samráð var haft við réttindagæsluna við gerð þessara úttektar og skýrslu og hvaða upplýsingar og gögn Ríkisendurskoðun fékk frá réttindagæslunni. 

 

Sjálfstæð mannréttindastofnun sem hefði eftirlit með réttindum fatlaðs fólks.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum samningsins.

33. gr. samningsins hefur yfirskriftina „Framkvæmd og eftirlit innanlands“. Í 2. mgr. þeirrar greinar segir:

Aðildarríkin skulu, í samræmi við réttar- og stjórnkerfi hvers ríkis um sig, viðhalda, treysta, tiltaka eða koma á rammaáætlun, einnig einu eða fleiri sjálfstæðum kerfum, eftir því sem við á, í því skyni að stuðla að, vernda og fylgjast með framkvæmd samnings þessa. Aðildarríkin skulu, þegar þau tiltaka slíkt kerfi eða koma því á, taka mið af þeim meginreglum sem gilda um stöðu og starfsemi innlendra stofnana á sviði verndar og eflingar mannréttinda.

Þessi ákvæði þýða að sú skylda hvílir á íslenska ríkinu að koma á fót sjálfstæðri innlendri stofnun, sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið (e. Paris Principles) til að hafa eftirlit með mannréttindum fatlaðs fólks. Íslenska ríkið hefur viðurkennt þessa skyldu eins og m.a. má sjá í áformum um frumvarp um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun sem dómsmálráðuneytið birti til kynningar í samráðsgátt stjórnarráðsins 5. mars 2019.[3] Þar segir:

Á undanförnum árum hefur verið stefnt að því að koma á laggirnar sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun (e. National Human Rights Institution) sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið, viðmiðunarreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindastofnanir. Fjöldi áskorana hefur borist frá innlendum og erlendum aðilum um að koma á fót slíkri stofnun. Sem dæmi má nefna að íslenska ríkið fékk fjölmörg tilmæli þess efnis í tengslum við allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttinda á Íslandi árið 2016 (UPR) og var samþykkt að fylgja þeim eftir.  Þá leggur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland fullgilti árið 2016, þá skyldu á íslenska ríkið að slík stofnun sé til staðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 33. gr. samningsins. (Feitletr. Þroskahj.).

Þar segir einnig:

Loks má greina ákveðna áherslu á mannréttindi í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, þar sem m.a. er lögð áhersla á mannréttindi í utanríkisstefnu Íslands, mannréttindi hinsegin fólks, mannréttindi barna skv. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í síðastnefnda samningnum er gerð krafa um tilvist sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar og er slík stofnunin því nauðsynlegur liður í innleiðingu samningsins. (Feitletr. Þroskahj.).

 

Þrátt fyrir þessa skýru þjóðréttarlegu skyldu, sem íslenska ríkið tók á sig árið 2016, þ.e. fyrir meira en 5 árum síðan, til að setja á fót sjálfstæða mannréttindastofnun, sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið, til að hafa eftirlit með að fatlað fólk njóti mannréttinda sem samningur SÞ mælir fyrir um og lögum nr. 38/2018 er ætlað að framfylgja, hefur sjálfstæð mannréttindastofnun ekki enn verið sett á fót.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir:

“Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur og stofnuð ný Mannréttindastofnun. “

Í stjórnarsáttmálanum segir hins vegar ekkert um hvenær Mannréttindastofnun verður stofnuð og ekki verður sé að gert sé ráð fyrir því í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir löggjafarþing 2021 – 2022 eða fjárlögum fyrir árið 2022.

Sjálfstæð og óháð Mannréttindastofnun, sem hefur eftirlit með að fatlað fólk njóti þeirra mannréttinda sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að tryggja er afar mikilvæg m.t.t. framfylgdar laga nr. 38/2018 af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Það hlýtur því að valda verulegum vonbrigðum og áhyggjum, í ljósi þess að nú eru liðin meira 5 ár frá því að íslenska ríkið skuldbatt sig til að setja á fót slíka stofnun að það skuli ekki tilgreint í stjórnarsáttmálanum hvenær eigi að framfylgja yfirlýsingunni um það verði gert. 

 

Aðgangur að réttindum.

 

Fatlað fólk er langoftast efnalítið og tekjulágt þar sem það er oftast háð örorkubótum sem eru skammarlega lágar og hefur mjög takmarkaða möguleika til að afla sér annarra tekna á ósveigjanlegum vinnumarkaði. Það þýðir að allur kostnaður sem því fylgir að sækja réttindi sín er því sérstaklega þungbær og mjög alvarleg og afdrifarík hindrun í vegi þess að það eigi raunhæfan möguleika til þess þegar það þarf aðstoð lögfræðinga, s.s. við að leggja mál sín fyrir úrskurðaðila í stjórnkerfinu, umboðsmann Alþingis og/eða dómstóla. Lög og reglur sem á reynir eru mjög oft flókin og/eða óljós og því nauðsynlegt fyrir fatlað fólk, sem ekki er löglært, að fá aðstoð lögfræðing til að greina mál og leggja þau fyrir til úrskurðar og/eða dóms. Þörf fyrir slíkan lögfræðistuðning verður eðli máls samkvæmt enn meiri þegar um þroskahömlun og skyldar fatlanir eða geðrænar raskanir er að ræða.

 

Með vísan til þess sem að framan segir telja samtökin nauðsynlegt að ríkið geri ítarlega  grein fyrir hvernig opinberum stuðningi við fatlað fólk varðandi framangreint er háttað, hverjir eru annmarkar á því kerfi og annað sem nauðsynlegt er að greina og skýra til að geta tekið upplýstar ákvarðanir um hvort og þá hvaða ráðstafanir þarf að gera, m.t.t. laga og reglna og stjórnsýslu, til að tryggt sé að fatlað fólk eigi raunhæfa möguleika til að sækja réttindi sín.

 

Landssamtökin Þroskahjálp telja að það eftirlit sem nú er hér landi með því að fatlað fólk njóti þeirrar þjónustu og réttinda sem lög nr. 38/2018 mæla fyrir um og mannréttinda sem áréttuð eru og varin í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks sé engan veginn fullnægjandi. Að mati samtakanna er það eftirlit ómarkvisst og brotakennt og alls ekki nægilega óháð félagsmálaráðuneyti, sveitarfélögum og fleiri stjórnvöldum sem bera mesta ábyrgð lögum samkvæmt á að veita fötluðu fólki nauðsynlegan stuðning og þjónustu til að það geti notið þeirra mannréttinda sem íslenska ríkið hefur sett í lög skuldbundið sig til að veita og tryggja.°

 

Leiðbeiningaskylda  skylda sveitarfélaga og upplýsingar um þjónustu á vefsíðum þeirra.

 

Fram kemur í skýrslunni að Ríkisendurskoðun telji það æskilegt að sveitarfélög yfirfari heimasíður sínar með tilliti aðgengis. Landssamtökin Þroskahjálp árétta að nauðsynlegt er að öll sveitarfélög fari yfir heimasíður sínar m.t.t. þessa. Sveitarfélögin bera ábyrgð á að upplýsa og leiðbeina þeim sem þurfa á þjónustu að halda og rétt eiga á henni og að tryggja upplýsingar varðandi þjónustuna og hvernig megi fá hana séu aðgengilegar fyrir alla og einnig á auðlesnu máli á heimasíðum sveitarfélagana. Ámælisvert er að um 25% sveitarfélaga hafi litlar sem engar upplýsingar á heimasíðum sínum, 60% þeirra upplýsingar tiltækar að  hluta og aðeins 15% þeirra séu með ítarlegar upplýsingar þar.

 

 

Landssamtökin Þroskahjálp verða að lýsa vonbrigðum með þá úttekt og skýrslu Ríkisendurskoðunar sem hér er til umfjöllunar og telja að hún varpi engan veginn nægilega skýru ljósi á þá annmarka sem eru varðandi framfylgd sveitarfélaga á lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og hvernig eftirliti með þeirri framfylgd er háttað.

 

Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá fund með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi þessa úttekt og skýrslu Ríkisendurskoðunar og þau mikilvægu viðfangsefni sem þar eru til umfjöllunar.

 

Virðingarfyllst,
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar

 
Nálgast má skýrsluna sem umsögnin á við hér

[1] https://www.althingi.is/altext/149/s/1690.html

[2] https://www.althingi.is/altext/145/s/1693.html

[3] https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=1335