Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um landsrýniskýrslu (e. Voluntary National Review) um innleiðingu íslands á heimsmarkmiðunum.

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um landsrýniskýrslu (e. Voluntary National Review) um innleiðingu íslands á heimsmarkmiðunum.

Landssamtökin þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks. Í samtökunum eru rúmlega 20 aðildarfélög með u.þ.b. sex þúsund félaga. Samtökin byggja stefnu sína og starf á alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum sem eru áréttuð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða og framfylgja.

 

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og mannréttindi fatlaðs fólks.

Heimsmarkmiðin eru nátengd alþjóðlega viðurkenndum mannréttindum sem mælt er fyrir um í mannréttindasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að virða og framfylgja, m.a. og ekki síst í samningi SÞ um réttindi fatlað fólks sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að innleiða á öllum þeim sviðum sem samningurinn nær til.

Meðal markmiða þar sem eru mikil og augljós tengsl við skyldur ríkisins samkvæmt ákvæðum samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks má nefna:

  • Fyrsta markmiðið um að „útrýma fátækt í allri sinni mynd alls staðar.“  
  • Þriðja  markmiðið um að „stuðla að heilbrigðu lífi og vellíðan fyrir alla frá vöggu til grafar.“
  • Fjórða markmiðið um að „tryggja öllum jafnan aðgang að góðri menntun og tækifæri til náms alla ævi.“
  • Áttunda markmiðið um að „stuðla að arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla.“
  • Tíunda markmiðið um að „tryggja öllum jafnan aðgang að góðri menntun og tækifæri til náms alla ævi.“
  • Ellefta markmiðið um að „gera borgir og íbúðasvæði öllum auðnotuð, örugg  og sjálfbær.“
  • Sextánda markmiðið um að „tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir fyrir alla.“

Í heimsmarkmiðum SÞ og við innleiðingu þeirra er lögð mikil áhersla á „að skilja enga einstaklinga eða hópa eftir, svo sem jaðarsetta hópa“, eins og segir í lið 4.4 í skýrslunni.  Heimsmarkmiðin og samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks eru öflug tæki fyrir stjórnvöld til að standa við það gagnvart mjög jaðarsettum hópi, þ.e. fötluðu fólki. Hvernig til tekst er mjög mikið undir því komið að þessi tæki verði tengd saman og beitt saman. Það hlýtur því að vekja mikil vonbrigði og undrun hversu lítið er fjallað um stöðu og réttindi fatlaðs fólk í þessari skýrslu um innleiðingu Íslands á heimsmarkmiðunum og ekki verður séð að þar sé minnst á samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Á því er þó enginn vafi að margt þarf að gera í íslensku samfélagi til að tryggja fötluðu fólki  mannréttindi og tækifæri til jafns við aðra eins og íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að gera með fullgildingu samningsins og lýst yfir með aðild sinni að heimsmarkmiðum SÞ, þ.e. „að láta engan undanskilinn“.    

Landssamtökin Þroskahjálp skora á íslensk stjórnvöld að bæta úr þessu og endurskoða skýrsluna í ljósi þessa. Samtökin lýsa jafnframt yfir miklum áhuga og vilja til að taka þátt í samráði við hlutaðeigandi stjórnvöld um það og vísa í því sambandi m.a. til skyldu íslenska ríkisins til samráðs við fatlað fólk og samtök sem vinna að hagsmuna- og réttindamálum þess samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

 

Á eftirfarandi hlekkjum má nálgast upplýsingar um tengsl heimsmarkmiða SÞ og alþjóðlega viðurkenndra mannréttinda, almennt og sérstaklega m.t.t. mannréttinda fatlaðs fólks sem áréttuð eru í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

https://www.ohchr.org/en/issues/SDGS/pages/the2030agenda.aspx

https://www.ohchr.org/Documents/Issues/MDGs/Post2015/SDG_HR_Table.pdf

http://www.edf-feph.org/sites/default/files/edf_-_sdgs_human_rights_report_final_accessible.pdf

 

Á þessum hlekk má nálgast samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks og upplýsingar varðandi hann.

https://www.althingi.is/altext/145/s/1637.html

Umsögn á samráðsgátt má skoða hér