Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um Heildarendurskoðun – reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um Heildarendruskoðun – reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar

23. febrúar 2024

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og nú er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.

 

25. gr. samningsins hefur yfirskriftina Heilbrigði. Þar segir m.a.:


 Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta besta mögulega heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu, sem tekur mið af kyni, þar á meðal heilsutengdri endurhæfingu.

 

Samtökin vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi það mál sem hér er til umfjöllunar.

Í 6. gr. reglugerðardraganna hljóðar svo:

Fullorðnir.

Greiðslur sjúkratrygginga samkvæmt þessum kafla skulu vera það hlutfall af gjaldskrá sem hér segir, sbr. þó 7. og 8. gr.:

a)  75% vegna öryrkja og aldraðra, sbr. þó 8. gr.

b)  100% vegna öryrkja og aldraðra sem eru langsjúkir og dveljast á sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum eða hjúkrunarrýmum á öldrunarstofnunum, sbr. þó 8. gr. Sama rétt eiga einstaklingar með andlega þroskahömlun 18 ára og eldri, þó með þeim fyrirvara að áður en til fyrstu endurgreiðslu kemur þarf að sækja sérstaklega um hana. (Feitletr. Þroskahj.)

 

Samtökin leggja til að b-lið greinarinnar verði breytt þannig að í stað „Sama rétt eiga einstaklingar með andlega þroskahömlun, 18 ára og eldri, ...“ komi  „Sama rétt á fatlað fólk, 18 ára og eldra, með langvarandi stuðningsþarfir, ...“.

Í 3. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem hefur yirskriftina Réttur til þjónustu, segir í 1. og 2. mgr.:

Fatlað fólk skal eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skal veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði félagsþjónustu, húsnæðismála, menntunar, vinnumarkaðar, öldrunarþjónustu og heilbrigðisþjónustu.

Opinberum aðilum ber að tryggja að sú þjónusta sem veitt er skv. 1. mgr. sé samfelld og samþætt í þágu einstakra notenda. Einstaklingur sem hefur notið þjónustu samkvæmt lögum þessum á rétt á að njóta hennar áfram nema verulegar breytingar verði á stuðningsþörfum hans. (Feitletr. Þroskahj.)

Tannlæknaþjónusta fellur undir heilbrigðisþjónustu. Samtökin gera því alvarlegar athugasemdir við það að sækja þurfi um greiðsluþátttöku fyrirfram til Sjúkratrygginga og að umsókn skuli vera á formi sem stofnunin ákveður og að umsækjanda sé skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að unnt sé að taka ákvörðun um rétt til greiðsluþátttöku, fjárhæð hennar, greiðslu og endurskoðun.

Meirihluti fatlaðs fólks með langvarandi stuðningisþarfir er á skrá hjá Tryggingastofnun ríkisins og ætti því að vera auðvelt fyrir Sjúkratryggingar að afla upplýsinga um mat á örorku, vottorð og gögn í stað þess að ætlast til þess að fatlað fólk skili inni vottorði áður en tannlæknaþjónusta er veitt.

Að ætlast til þess að einstaklingar skili inn vottorði til Sjúkratrygginga frá lækni þar sem kemur fram greining á ,,andlegri þroskahömlun’’ og að greiningin sé samkvæmt ICD númerum ef slík greining er til eykur til muna flækjustigið og auk þess er ekki auðvelt að fá tíma hjá heimilslækni eða sérfræðingi.

Benda samtökin einnig á að mögulega er fjöldinn allur að fötluð fólki í þeirri stöðu að hafa ekki það félagslega bakland og stuðning sem þarf til að sinna þessari „forvinnu“ fyrir tannlæknaþjónustu og er þar að leiðandi verið að mismuna fötluðu fólki um þjónustu og er þetta svo sannarlega ekki í þágu notandans.

Fyrirkomlagið eins og það er núna og einnig sem gert er ráð fyrir að verði eftir þessa heildarendurskoðun gerir það að verkum að veruleg hætta er á að fatlað fólk fari á mis við réttindi sín og fái ekki endurgreiðslur sem því ber að fá samkvæmt lögum.

Samtökin lýsa eindregnum áhuga og vilja til samráðs og samstarfs við ráðuneytið um þau mikilvægu mál sem hér eru til umsagnar og vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samningsins sem hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

 

Nálgast má málið sem umsögnin á við hér.