Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um grænbók um mannréttindi

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um grænbók um mannréttindi

Landssamtökin Þroskahjálp fagna ákvörðun forsætisráðherra um gerð grænbókar um mannréttindi og lýsa miklum vilja til samstarfs og samráðs við ráðuneytið við það mikilvæga verkefni. Í því sambandi vekja samtökin sérstaklega athygli á samráðsskyldum stjórnvalda samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja. Samráðsskyldurnar eru áréttaðar sérstaklega í 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina “almennar skuldbindingar” og í 33. gr. hans sem hefur yfirskriftina “Framkvæmd og eftirlit innanlands”.

3. mgr. 4. gr. samningsins er svohljóðandi:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Og 33. gr. samningsins hljóðar svo:

     1.      Aðildarríkin skulu tilnefna, í samræmi við stjórnskipulag sitt, eina miðstöð eða fleiri innan stjórnsýslunnar vegna mála er varða framkvæmd samnings þessa og taka til tilhlýðilegrar umfjöllunar hvort koma skuli á eða tiltaka samræmingarkerfi innan stjórnsýslunnar í því skyni að greiða fyrir skyldum aðgerðum á ólíkum sviðum og ólíkum stigum.
     2.      Aðildarríkin skulu, í samræmi við réttar- og stjórnkerfi hvers ríkis um sig, viðhalda, treysta, tiltaka eða koma á innviðum, þar á meðal einu eða fleiri sjálfstæðum kerfum, eftir því sem við á, í því skyni að styrkja, vernda og hafa eftirlit með framkvæmd samnings þessa. Aðildarríkin skulu, þegar þau tiltaka slíkt kerfi eða koma því á, taka mið af þeim meginreglum sem gilda um stöðu og starfsemi þjóðbundinna mannréttindastofnana.
     3.      Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem koma fram fyrir þess hönd, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.
(Feitletr. Þroskahj.)

Mjög mikilvægt er að við þetta samráð verði þess sérstaklega gætt að taka fullt tillit aðstæðna og þarfa fatlaðs fólks, þ.m.t. fólks með þroskahömlun eða skyldar fatlanir og að sérstaklega verði hugað að viðeigandi aðlögun til að tryggja að fólki verði ekki mismunað á grundvelli fötlunar hvað varðar tækifæri til að taka virkan þátt í gerð grænbókarinnar og að koma reynslu sinni og sjónarmiðum á framfæri á öllum stigum þeirrar vinnu.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé því lýst yfir að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur og „stofnuð ný Mannréttindastofnun“ en verða að lýsa vonbrigðum með að það skuli ekki koma skýrt fram í stefnuyfirlýsingunni hvenær það verður gert. Í því sambandi er óhjákvæmilegt að benda á að

Alþingi samþykkti þingsályktun mótatkvæðalaust 3. júní 2019 um að „frumvarp, sem feli í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum, verði lagt fram á Alþingi með það að markmiði að samningurinn verði lögfestur eigi síðar en 13. desember 2020.“ (Þingskjal 1690  —  21. mál.).

 

Þá féll sú þjóðréttarlega skylda á íslenska ríkið við fullgildingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 að stofna sjálfstæða manréttindastofnun sem uppfyllir skilyrði Parísar-meginreglnanna til að hafa eftirlit með að fatlað fólk njóti þeirra mannréttinda sem samningurinn áréttar og ver, sbr. 3. gr. 33. gr. samningsins. Nú, meira en 5 árum síðar, hefur það ekki enn verið gert.

 

Þá lýsa samtökin miklum vonbrigðum með að þrátt fyrir að Alþingi hafi samþykkt mótatkvæðalaust 20. september 2016 að valkvæður viðauki við samninginn skyldi fullgiltur fyrir árslok 2017 (Þingskjal 1693  —  865. mál) hefur það ekki enn verið gert. Samtökin hvetja forsætisráðherra til að beita sér fyrir því að viðaukinn verði tafarlaust fullgiltur. 100 ríki hafa nú fullgilt viðaukann.

 

Virðingarfyllst,

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna og fatlaðs fólks af erlendum uppruna

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér