Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 34. mál.

 Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 34. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka velferðarnefnd fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfærandi við nefndina og Alþingi varðandi það.

Samkvæmt ályktun sem Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust 3. júní 2019 átti að leggja fram frumvarp um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eigi síðar en 13. desember 2020.[1] Það hefur ekki enn verið gert.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir:

“Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur og stofnuð ný Mannréttindastofnun.“

Í stjórnarsáttmálanum segir hins vegar ekkert um hvenær samningurinn verður lögfestur og ekki verður séð að gert sé ráð fyrir því í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir löggjafarþing 2021 – 2022 eða fjárlögum fyrir árið 2022.

Lögfesting samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks er afar mikilvægur liður í að tryggja betri framfylgd laga nr. 38/2018 af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Það hlýtur því að valda verulegum vonbrigðum og áhyggjum, í ljósi þess að nú er liðið meira en ár frá því að leggja átti fram frumvarp um lögfestingu samningsins, að það skuli ekki tilgreint í stjórnarsáttmálanum hvenær eigi að framfylgja þessari þingsályktun og standa við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um lögfestingu samningsins. 

Með vísan til framangreinds lýsa Landssamtökin Þroskahjálp eindregnum stuðningi við frumvarpið. Samtökin óska einnig eftir að fá fund með velferðarnefnd til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi þetta mikilvæga mál.

Virðingarfyllst,
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar

 

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér



[1] https://www.althingi.is/altext/149/s/1690.html